141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[20:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á því sem mér sýnist í rauninni vera metnaðarleysi stjórnarflokkanna þegar kemur að öryggi borgaranna. Við fengum því framgengt hér að samþykkt var að fara í gerð löggæsluáætlunarinnar, sem metur mannaflaþörf, fjármagnsstörf og hitt og þetta, til að bæta úr nákvæmlega því sem við teljum fulla þörf á varðandi lögregluna og öryggi borgaranna, þ.e. að vera með stefnu og sýn um hvernig við ætlum að vinna. Því er það sem hv. þingmaður benti á mjög athyglisvert. Það voru ekki settir neinir fjármunir í það að bregðast við tillögunum sem þar koma fram. Mjög undarlegt verð ég að segja.

Hv. þingmaður nefndi réttilega og talaði aftur um hvað við getum gert til að efla fjárfestingar og annað. Ég sagði áðan að það væri mikilvægt að auka stöðugleika eða efla trú manna á Íslandi. Þá kom mér til hugar að fyrir nokkru síðan var hér erlendur fjárfestir á ráðstefnu. Hann var spurður að því hverju Íslendingar þyrftu helst að breyta til að erlendir fjárfestar kæmu hingað. Hann sagði, með leyfi forseta: Íslendingar verða að vera vingjarnlegri eða „more welcoming“, eins og hann orðaði það á ensku. Helsta vandamálið væri að fjárfestum fyndust þeir óvelkomnir á Íslandi.

Dettur einhverjum í hug að sá erlendi fjárfestir hafi farið til síns heima og ekki sagt frá sinni tilfinningu? Eru einhverjar líkur á því að enginn viti að maðurinn hafi sagt það hér á landi? Ég man ekki einu sinni í hverju náunginn vildi fjárfesta en ef þetta er sú tilfinning sem menn hafa þegar þeir koma til Íslands, að við séum ekki vinsamleg þegar menn vilja koma með fjármuni, (Forseti hringir.) er eitthvað verulega mikið að.