141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:55]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála greiningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar hvað þetta varðar. Við stöndum frammi fyrir því að fjárlögin, sem eru helsta hagstjórnartæki Alþingis og ríkisstjórnarinnar, eru þannig að þau valda vanda á vinnumarkaði. Þau gera kjarasamningana erfiðari. Það hlýtur að vera umhugsunarefni í það minnsta fyrir þá hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans sem gefa sig að svona málum af einhverri alvöru.

Eins hlýtur það að vera umhugsunarefni þegar þróun ríkisfjármálanna er skoðuð, sem ég gerði að umræðuefni í fyrri ræðu minni. Er verið að gera allt sem nauðsynlegt og mögulegt er til að auðvelda okkur að afnema gjaldeyrishöftin? Því miður er alveg augljóst þegar menn skoða frumvarpið að svo er ekki. Það er ekki hægt að halda því fram að allt kapp sé lagt á að stilla málin þannig af að afgangur myndist svo hægt sé að byrja að greiða niður skuldir. Við vitum að um leið og við lyftum gjaldeyrishöftunum mun það gerast að fjármagnskostnaðurinn vex og hann getur vaxið umtalsvert.

Fjárlögin munu gera okkur það erfiðara og seinka því að við getum afnumið gjaldeyrishöftin. Þetta frumvarp er því miður til vandræða bæði hvað varðar vinnumarkaðinn, (Forseti hringir.) gjaldeyrishöftin og verðbólguna.