141. löggjafarþing — 45. fundur,  3. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:51]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Í sjávarútveginum hefur auðvitað verið uppsöfnuð gríðarlega mikil fjárfestingarþörf. Þegar hún dregst saman um kannski 15 milljarða á ári, ár eftir ár, hlýtur að koma að því að hún verði að minnsta kosti eitthvað í líkingu við það sem hún var. Þó hefur ekki allt verið unnið upp sem í raun og veru skorti á að fjárfest væri í þeirri grein. Þar verður að gera greinarmun á jákvæðum góðum fjárfestingum, eins og hv. þingmaður kom inn á að ættu sér nú stað á Austfjörðum, sem auka arðsemi og hafa líka jákvæð umhverfisleg áhrif og síðan því þegar menn láta ganga kaupum og sölum eignarhluti í fyrirtækjum sem er í sjálfu sér engin ný fjárfesting í greininni.

Atvinnuvegafjárfesting hefur verið allt of lág og langt undir því sem að hefur verið stefnt og við þurfum á að halda. Við þurfum að fá atvinnuvegafjárfestingu sem eykur útflutningstekjur okkar og þó að hún sé aðeins að skríða upp er hún að skríða upp frá mjög lágum tölum.

Síðan er það þetta með jöfnuð í ríkisfjármálum. Hugtakið frumjöfnuður hefur mjög mikið verið notað á þessu kjörtímabili. Það lýsir mismuninum á milli rekstrartekna og rekstrargjalda ríkissjóðs fyrir utan alla fjármagnsliði, allan vaxtakostnað og annað slíkt. Svo mjög hefur kveðið að þessu að mér finnst það hafa gengið úr öllu hófi fram vegna þess að við þurfum að horfa á heildarjöfnuðinn. Það er hann sem við erum ábyrg fyrir. Ef heildarjöfnuðurinn er mjög neikvæður hvílir á okkur tap af þessu öllu saman og það eru krónur sem þarf að borga alveg eins og hinar krónurnar. Þetta er eins einfalt og skýrt og það getur helst orðið.

Ríkisstjórnin frestaði áformum um að ná heildarjöfnuði. Nú er lagt fram frumvarp þar sem sagt er einu sinni enn að það verði heildarjöfnuður, en ég hef vakið máls á fjölmörgum stórum liðum sem ekki eru inni í frumvarpinu sem að mínu áliti valda því að líkur eru til þess að ríkissjóður verði þrátt fyrir allt, þrátt fyrir öll fögru orðin, rekinn með miklum halla á næsta ári.