141. löggjafarþing — 46. fundur,  4. des. 2012.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag eru að gerast merkilegir hlutir í þinginu þar sem Alþingi Íslendinga á að vera sjálfstætt frá framkvæmdarvaldinu. Hér stígur á stokk hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon og tuktar þingmenn til. Hann hefði alveg eins getað sagt: Nú má ég, nú er ég í ríkisstjórn, nú skuluð þið haga ykkur vel.

Það er maðurinn sem á Íslandsmet í málþófi í þinginu, hann sat svo lengi í stjórnarandstöðu.

Mér er minnisstætt það sem gerðist hér í beinni útsendingu haustið 2008. Ég ætla ekki að rifja það upp fyrir hæstv. ráðherra Steingrím J. Sigfússon er hann gekk fram hjá þessu ræðupúlti. Hvers lags dónaskapur er hér á ferðinni? Ég spyr: Hefur ráðherra leyfi til að koma í þingsal og tukta þingmenn til, tukta þá til hlýðni? Þvílíkur hroki og sjálfshól sem birtist í því þegar hæstv. ráðherra segir að nú liggi fyrir þinginu allra besta fjárlagafrumvarpið í fimm ár.

Virðulegi forseti. Ég tel að nú séu málin komin á ranga braut og ég tel að málin séu líka komin á ranga braut þegar hv. þm. Margrét Tryggvadóttir segist ekki ráða við vinnuna sína. Ég segi: Þeim þingmönnum sem ráða ekki við vinnuna sína ber skilyrðislaust að segja starfi sínu lausu og kalla inn varamann (Gripið fram í: Þú ert að …) eða þá að hvetja til þess að hér verði boðað til kosninga, (Gripið fram í.) t.d. með því að taka höndum saman við aðra stjórnarandstöðuþingmenn og lýsa yfir vantrausti á þessa ríkisstjórn. Þingmenn eru að gefast upp á ríkisstjórninni. Þjóðin er búin að gefast upp á ríkisstjórninni.

Ég tel orðið tímabært að hér verði boðað til kosninga úr því að framkvæmdarvaldið sýnir hér sitt rétta andlit (Forseti hringir.) og skammar þingmenn fyrir það eitt að nota málfrelsi sitt.