141. löggjafarþing — 46. fundur,  5. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[03:17]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því að ekki hefur enn verið mælt fyrir tekjuhluta frumvarpsins eða bandorminum svokallaða. Það er auðvitað miður, sérstaklega í ljósi þeirra umræðna sem áttu sér stað fyrir ári við gerð fjárlaga fyrir árið 2012. Þar var uppi ágreiningur vegna breytinga á þingskapalögunum um það hvernig standa ætti að því að rýna tekjuhlið frumvarpsins. Ég hélt að við mundum ekki lenda í sambærilegu en því miður er það þannig. Til að undirstrika það þá var bandormurinn, eða kyrkislangan eins og ég kalla hann alltaf, lagður fram á sama degi og 2. umr. fjárlaga hófst sem er ekki ásættanlegt. Í fyrra var hann til að mynda lagður fram 1. nóvember, mælt fyrir honum 3. nóvember og síðan var 2. umr. fjárlaga mánuði seinna. Meira að segja haustið 2009, þegar stærstu skattkerfisbreytingarnar voru, var hann lagður fram 24. nóvember en 2. umr. fór fram 14. desember. Það eru ekki nógu góð vinnubrögð að gera hlutina á þennan hátt.

Það er líka umhugsunarefni það sem gerist í tekjuhlutanum núna þar sem gert er ráð fyrir ýmsum skattkerfisbreytingum sem við munum ræða þegar við förum að ræða bandorminn eða tekjuhlið frumvarpsins. Vísitöluáhrifin af þessum óbeinu skattahækkunum, eða þeim sköttum sem hækkaðir eru og krónutölusköttunum sem fara beint inn í vísitöluna, eru 0,25%. Síðast þegar ég gáði voru heildarskuldir heimilanna í landinu um 1.750 milljarðar kr. og þó að þetta sé lág tala, 0,25%, og þegar maður reiknar það í hugunum þá eru það kannski 4,4–4,5 milljarðar sem skuldir heimilanna hækka út af þessum óbeinu skattahækkunum. Því miður hafa þær tekjur sem eru áætlaðar og koma inn með þeim hætti ekki skilað sér.

Mikilvægasta verkefnið fram undan er að ná tökum á útgjöldum ríkissjóðs og ríkisfjármálunum í heild sinni. Það verður að segjast eins og er, og það hefur komið fram bæði í fjáraukalögum og fjárlögum, að tekjuhluti fjárlaganna hefur verið að ganga eftir, það eru staðreyndir sem blasa við. En útgjaldaaukningin hefur ekki staðið. Því er auðvitað mjög dapurlegt að þegar tekjurnar hafa verið að aukast, og jafnvel umfram væntingar, að hafa ekki getað byrjað að greiða niður skuldir til að draga úr vaxtakostnaði ríkissjóðs. Vaxtakostnaður ríkissjóðs er gríðarlegt áhyggjuefni og við sjáum það í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013, þar sem gert er ráð fyrir að vaxtagjöldin ein og sér séu um 84 millj. kr. og vaxtajöfnuðurinn, þegar búið er að taka tillit til vaxtatekna ríkissjóðs, er rúmir 63 milljarðar kr. Manni finnst það vera hálfgerðir blóðpeningar og væri mikilvægt að reyna að ná þessum kostnaði niður til að geta sett það inn í reksturinn og hlúð betur að grunnstoðum samfélagsins.

Það hefur því miður gerst á undanförnum árum að þessi vaxtajöfnuður hefur verið að aukast og hann eykst til að mynda milli áranna 2012 og 2013 um 8 milljarða. Í raun og veru er uppsafnaður vaxtamunur um 23 milljarðar á þessum þremur árum og er mjög bagalegt að geta ekki nýtt þá peninga til að nota frekar í rekstur sem mikilvægt er að byggja undir frekar hjá ríkissjóði.

Það er líka staðreynd að þegar við höfum verið að ræða hér fjárlög og síðan þegar búið er að mæla fyrir fjáraukalögum hefur niðurstaða ríkisins verið allt önnur. Á síðustu tveimur árum, bæði á árinu 2010 og 2011, munar þar 96 milljörðum kr. sem ríkisreikningur, sem er hin endanlega niðurstaða á rekstri ríkissjóð, er lakari en gert hafði verið ráð fyrir, á tveimur árum munar þar um 100 milljörðum kr. Auðvitað ber að hafa í huga og ekkert annað en réttlátt að geta þess að þarna er kannski um einskiptisaðgerðir að ræða, eins og við höfum stundum nefnt þær. En sér fyrir endann á þeim? Nei, því miður sér ekki fyrir endann á þeim. Það er gríðarleg áhætta sem fylgir Íbúðalánasjóði og þau ský sem þar eru á lofti eru mörg mjög óhagstæð og það er nánast sama hvað gerist tapið mun aukast hjá sjóðnum. Ég held að það eigi eftir að verða gríðarlega mikið tap á Íbúðalánasjóði á næstu árum, að afskrifa þurfi mjög háar upphæðir hjá ríkinu. Það eru viðfangsefni og verkefni sem fram undan eru.

Er það núverandi ríkisstjórn að kenna? Nei, það er það ekki en þetta er eigi að síður það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að dregið sé úr þeirri útgjaldaaukningu sem á sér stað hjá ríkissjóði. Í þessu frumvarpi, eins og ég hef farið yfir og gerði í síðustu ræðu minni, eru ákveðin verkefni sem að mínu viti væri mjög skynsamlegt að slá af í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. En ekki hefur komið fram mikill skilningur á því hversu mikilvægt það er.

Síðast en ekki síst vegna skuldsetningar ríkissjóðs sem er alltaf að aukast — skuldir og skuldbindingar ríkissjóðs eru um 1.900 milljarðar kr. og hafa verið að aukast. Það er mikilvægt að ná tökum á því. Í hagspá Seðlabankans er sagt að helsta áhyggjuefnið sé að stjórnvöld hafi ekki innleitt formlegar fjármálareglur. Það er því alveg klárt og skýrt — og ég hef sagt þetta mjög lengi í mörgum umræðum — hve mikilvægt er að þverpólitísk sátt náist um það hvernig menn sjá fyrir sér og hefji þá vegferð að fara að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Að menn setji bara fastar reglur um það hverju megi eyða og ráðstafa af tekjunum inn í rekstur ríkisins. Síðan verður að taka hitt af til að greiða niður skuldir af því að við megum ekki og eigum ekki að gera hlutina á þann veg að við veltum alltaf vandamálunum á undan okkur og látum aðra um að leysa þau. Það sést hve mikilvægt er að setja fjármálareglur af þessu tagi þegar fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar er skoðuð. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er mikilvægt að skera ákveðna hluti þar af, það er lífsnauðsynlegt að ná niður skuldum ríkissjóðs.

Þegar menn fara síðan inn í kosningaár eins og núna þá tala margir hv. stjórnarliðar, að manni finnst, digurbarkalega um að nú sé viðspyrnunni náð og niðurskurði lokið sem er því miður ekki þó að verið sé að hlífa ákveðnum þáttum. Það er enginn pólitískur ágreiningur um að hlífa ákveðnum þáttum en þá þarf að sýna það í verki. Velferðarhluta fjárlaganna hefur til að mynda verið hlíft í niðurskurðartillögum allt þetta kjörtímabil en samt hefur verið vegið það nærri stoðum margra grunnstofnana að það verður að bæta við.

Það er líka gríðarlega mikið áhyggjuefni að mistekist hefur að byggja upp þær væntingar sem voru um viðspyrnu í hagvextinum og um varanlegri hagvöxt. Það er staðreynd og það blasir við að alltaf hefur verið að draga úr hagvaxtarspánni og væntingum sem snúa að þessum fjárlögum, að árinu 2012 og að árinu 2013. Það er verið að endurskoða hagspána og því miður hefur hún alltaf farið niður. Menn geta svo komið hingað upp og sagt: Hér er viðunandi hagvöxtur miðað við mörg önnur lönd. Það má vel vera en við höfum bara miklu meiri tækifæri til að spyrna fastar við fótum en gert hefur verið.

Það er líka umhugsunarefni hvers vegna þær fjárfestingar sem nauðsynlegt er að fara í eru ekki í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ef atvinnuuppbygging á að verða á Bakka vantar það inn í fjárlögin til að hægt sé að fara í þá hluti. Bygging húss íslenskra fræða mun ekki styðja við uppbygginguna á Bakka. Það vantar í innviðafjárfestinguna þar fyrir norðan til að sú uppbygging geti orðið.