141. löggjafarþing — 47. fundur,  5. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet menn til að leggja við hlustir. Hér kom einn af helstu forustumönnum Samfylkingarinnar sem taldi að það væri stórhættulegt að lækka skatta. Ég ætla ekki einu sinni að hafa eftir orðin, þau voru svo stór, hvað það væri hættulegt að lækka skatta. Það er mjög mikilvægt að allir kjósendur á landinu séu meðvitaðir um þetta. Hér talar forusta Samfylkingarinnar: Það er stórhættulegt að lækka skatta. Við héldum alltaf að það væru Vinstri grænir sem væru á þessari línu — nei, nei, það er Samfylkingin. Hér er komin mjög skýr yfirlýsing og ég þakka hv. þingmanni fyrir hreinskilnina. Það er alveg til fyrirmyndar að vera svona hreinskilinn, en skelfilegt að hafa þessa skoðun.

Ég minntist aldrei á grískt ástand þannig að ég veit ekki af hverju er verið að leggja út frá því í ræðu hv. þingmanns. Hins vegar, af því að hér tala menn um árangur í ríkisfjármálum, þá munaði hvorki meira né minna en 100 milljörðum á áætlunum og ríkisreikningi fyrir 2010–2011. Ég veit ekki hvort tekið sé eftir því um allan heim en ég mundi ætla það.

Varðandi hátekjufólkið, sem hv. þingmaður talar um, þá hef ég spurst fyrir um þetta. Hér eru skrifleg svör um hverjir greiða þessa skatta. Það er ótrúlega stór hópur fólks sem er með lágar tekjur. Ég veit að þetta er eldra fólk sem á skuldlaust húsnæði en þarf að selja núna til að framfleyta sér. Menn geta ekki talað í svona slagorðastíl. Hv. þingmaður verður að kynna sér málið. Hér liggja fyrir þingskjöl sem sýna svart á hvítu hvaða tekjur þetta fólk hefur. Þeir sem eru allra ríkastir, þeir fara til útlanda. Það var farið yfir það með okkur í efnahags- og skattanefnd. Þeir geta gert það. Ef maður er alveg ofsalega ríkur og ég tala nú ekki um á besta aldri þá er ýmislegt hægt að gera. Hvað þýðir það? Það þýðir að tekjur þeirra eru ekki lengur fyrir okkur að nýta í þá málaflokka sem við viljum nýta þær í. Eftir stendur, og það er stærsta og alvarlegasta vandamálið, að hér er fjárfesting enn þá í (Forseti hringir.) sögulegu lágmarki. Það þýðir að við erum ekki að skapa verðmæti, atvinnu og tekjur fyrir ríkissjóð.