141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:13]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra spurninga áðan og ætla að spyrja hann aftur, ef þær fóru fram hjá honum. Það er ekki deilt um að samkvæmt lögum á Fjármálaeftirlitið, og hefur átt, að hafa eftirlit með slitastjórnum. Á haustdögum 2008 gerði Fjármálaeftirlitið samkomulag við skilanefndirnar, ef ég man rétt, um 16.000 kr. tímagjald sem hefur á þessum tíma hækkað upp í 35.000. Menn eru ansi snöggir að ná í meðallaunin þar fyrir landsmenn, en látum það liggja á milli hluta.

Það sem ég var að spyrja um er af hverju eftirlitið hefur ekki verið framkvæmt. Það hefur komið alveg skýrt fram í nefndinni, það hefur ekki verið gert en það er lagaskylda. Ríkisstjórnin hefur sagt: Við þurfum meiri peninga, 500 og eitthvað milljónir, af því við þurfum að sinna því betur. Af hverju hefur það ekki verið framkvæmt? Það er stóra spurningin.

Sömuleiðis varðandi neytendamálin, menn hafa talað hér um að það væri óljóst. Ég fagna því ef það er skýrt að neytendamálin séu á höndum Fjármálaeftirlitsins. Ég vil fá að vita sjónarmið hæstv. ráðherra í því. Lítur hann svo á að neytendamálin séu hjá Fjármálaeftirlitinu? Það er afskaplega mikilvægt að þau séu á einum stað svo fólk sé meðvitað um það. Ég held Fjármálaeftirlitið sé sú stofnun sem best ætti að geta sinnt þessu, ef við beinum athyglinni að því.

Tvær spurningar: Er það svo að neytendamálin séu hjá Fjármálaeftirlitinu? Síðan hitt: Af hverju hefur ekki verið haft eftirlit með slitastjórnum þótt það beri að gera samkvæmt lögum?