141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að sjálfsögðu að Fjármálaeftirlitið sé að fara að lögum. Það fer með eftirlit með slitastjórnum á þann hátt sem það hefur sjálft útlistað hvernig gerist. Það felur í sér að til dæmis er gætt að því að viðskiptahættir séu eðlilegir og heilbrigðir. Fjármálaeftirlitið hefur tekið við kvörtunum vegna einstakra slitastjórna og síðan sent frá sér álit í kjölfar könnunar á því hvort það telji að þar hafi viðskiptahættir verið eðlilegir. Það hefur gert athugasemdir við til dæmis það sem það telur að hafi ekki verið staðið rétt að, sett svonefndar gagnsæistilkynningar á sína heimasíðu o.s.frv. Það er, held ég, fullyrðing sem ekki er innstæða fyrir, að eftirlitinu sé ekki sinnt. Ef hv. þingmaður er beinlínis að segja að hann telji að Fjármálaeftirlitið fari ekki að lögum og sinni ekki skyldum sínum, er það auðvitað stór og alvarleg ásökun. Ég tel að það sé ekki innstæða fyrir henni. Það er náttúrlega fráleitt að halda því fram að eftirlitinu sé ekki sinnt. Eins og ég rakti hér og vísa til í gögnum, kemur það fram. Fjármálaeftirlitið tíundar sjálft hvernig það gerir þetta.

Varðandi neytendamálin þá reyndi ég að svara því áðan. Ég lít svo á að þau séu að sjálfsögðu hjá Fjármálaeftirlitinu, samanber það sem Fjármálaeftirlitið segir um að það sinni neytendamálum meðal annars í tengslum við að hafa eftirlit með því að viðskiptahættir eftirlitsskyldra aðila séu heilbrigðir og eðlilegir og í gegnum það að leggja mat á hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra eftirlitsskyldra aðila, og fleira í þeim dúr.

Svo minni ég nú á að til viðbótar öllu því hefur líklega um þriggja ára skeið starfað sérstök eftirlitsnefnd sem skilar árlegum skýrslum. Sú nýja er væntanleg innan fárra daga, að því ég best veit, skýrslan fyrir árið í ár frá (Forseti hringir.) hinni sérstöku eftirlitsnefnd sem starfar á grundvelli sérlaga.