141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

viðvera ráðherra og framsögumanns máls.

[15:44]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í því máli sem hér er rætt takast á tvö gamalkunnug sjónarmið, annars vegar það sjónarmið að þingmenn eigi að geta krafist þess að ráðherrar séu viðstaddir umræðu um mál sem eru á þeirra málasviði og hins vegar hitt sjónarmiðið, að Alþingi sé sjálfstætt löggjafarvald og eigi að fjalla um þau mál þegar þau eru komin í þingið. Það er mikið til í báðum sjónarmiðunum.

Eins og komið hefur fram hefur formaður viðkomandi þingnefndar tekið þátt í umræðu. Við fyrri umr. um mál sem ráðherra flytur er ráðherrann eðlilega viðstaddur og getur tekið við spurningum og tekið þátt í umræðu. Spurningin er: Á það líka við um síðari umr. þegar verið er að ræða niðurstöðu af þingnefndarvinnunni? Það getur átt við að einhverju leyti. En er hægt að sameina það með einhverjum hætti? Ég tel að það sé hægt, að hægt sé að ætlast til þess að ráðherrar séu hér viðstaddir alla meginumræðuna jafnvel þó að það sé síðari umr., að þeir hlýði á sjónarmið og (Forseti hringir.) taki þátt í umræðunum. En það þýði ekki endilega að þeir þurfi að vera látlaust hér langt fram á kvöld og inn í nætur þegar þingmenn kjósa að teygja lopann í umræðum um mál (Forseti hringir.) umfram það sem segja má að sé nokkurn veginn eðlilegt.