141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[15:50]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Rétt til að fylgja eftir umræðunni áðan um fundarstjórn forseta varðandi þá fyrirspurn hverjir eigi að vera viðstaddir umræðuna þá ætla ég ekki að gera ágreining út af því að hv. þm. Mörður Árnason skuli ekki vera hér, það er kannski bara málinu til framdráttar, enda hefur hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir verið viðstödd meira og minna alla umræðuna og staðið sig með sóma. Hún hefur staðið vaktina vel. En um leið verð ég að segja að það var nokkuð kúnstugt að heyra nokkra þingmenn stjórnarliðsins eins og hv. þm. Árna Þór Sigurðsson tala um að ráðherrar, hæstv. umhverfisráðherra eða hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra, ættu ekki að vera hér látlaust, eins og hann orðaði það.

Ég spyr: Hvað hefur breyst? Er það kannski vegna þess að Vinstri grænir eru komnir í ráðherrastól? Sú skoðun sem fram kemur í orðum hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar um að ráðherrar eigi ekki að vera hér, var að minnsta kosti ekki sú regla sem ég var látin fara eftir á sínum tíma af hálfu þingsins. Mér fannst það bara fínt, enda er það á ábyrgð ráðherra að setja fram frumvörp. Ég skal aldeilis halda því fram í þessu máli að ábyrgð ráðherra sé hér mikil og erfið þó að þau vilji ekki viðurkenna að pólitísku fingraförin eru komin út um allt í því mikilvæga máli sem rammaáætlunin er.

Ég ætla aðeins að fara yfir söguna af því að hún skiptir máli. Hún skiptir eiginlega gríðarlega miklu máli til að við áttum okkur á samhengi hlutanna og umræðunni sem átt hefur sér stað á síðasta sólarhring, það er sagan sjálf. Sumir vilja rekja hana allt aftur til ársins 1993 en það er alla vega ljóst að á þeim árum er mikil umræða hafin um umhverfisvernd og umhverfisverndarsjónarmiðum gert fer hærra undir höfði en oft og tíðum áður, sem betur fer. Við reynum að hafa samspil nýtingar- og verndunarsjónarmiða. Auðvitað er ákveðin pólitík í því hvernig við ræðum það. Sú pólitík gaus mjög upp á síðasta áratug síðustu aldar og sú hugsun fór vel inn í fyrsta áratug þessarar aldar.

Á tímabilinu 1998–1999 komu stjórnmálaflokkarnir sér saman um að setja málið í ákveðinn farveg af því að þeir höfðu mjög skiptar skoðanir á því hversu mikið ætti að virkja, hvar ætti að virkja, hvað ætti vernda o.s.frv. Ég dreg ekki dul á að skiptar skoðanir hafi verið í gegnum tíðina í Sjálfstæðisflokknum um verndunarsjónarmið og nýtingarsjónarmið. Mér er hugsað til fyrrum hv. þm. Katrínar Fjeldsted sem var ötull talsmaður mikillar umhverfisverndar í flokknum og naut mikillar virðingar fyrir það og mikils skilnings. Ég held að margt hafi þokast í rétta átt allt frá því að brautryðjandinn á hinu pólitíska sviði í umhverfisvernd, Birgir Kjaran, byrjaði á sínum tíma að ræða umhverfismál og flutti þau inn á borð hinnar pólitísku orðræðu. Það má kannski segja að hann hafi verið frumherji meðal stjórnmálamanna í því að benda á mikilvægi umhverfisverndar og -sjónarmiða.

Hvað var síðan gert frá árinu 1999 þegar málið var sett í ákveðinn farveg? Við höfum rætt um rammaáætlun 1 í rauninni og 2, verkefnisstjórn var skipuð og árið 2003 hélt áfram vinna við gerð og vinnslu rammaáætlunar.

Það var svolítið kúnstugt að heyra það í gær þegar rifrildi eða skeytasendingar upphófust um það hver ætti mesta heiðurinn af því ferli öllu. Ég sagðist ekki vilja taka þátt í því en um leið vil ég segja að allir flokkar komu á einn eða annan hátt að málinu, hvort sem það var Sjálfstæðisflokkurinn eða aðrir. Og þótt málið hafi ávallt verið leitt áfram undir forustu okkar sjálfstæðismanna í ríkisstjórnum okkar komu aðrir flokkar að sjálfsögðu þar að. Ég get nefnt Framsóknarflokkinn og Valgerði Sverrisdóttur, þá iðnaðarráðherra, sem vann áfram með verkefnið árið 2003 í góðri sátt ekki bara við Sjálfstæðisflokkinn heldur líka við aðra flokka. Og árið 2007, þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð, var málið unnið áfram og skipti það miklu máli í stefnuyfirlýsingu flokkanna á sínum tíma. Þá var lögð áhersla á að ljúka gerð rammaáætlunar, enda brýnt, eins og sagði þá í stjórnarsáttmálanum, að skapa sátt um vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Til að tryggja slíka sátt var tekin sú ákvörðun af hálfu þeirra stjórnarflokka, og sú ákvörðun var studd af hálfu þáverandi stjórnarandstöðu, að skipa faglega verkefnisstjórn og gefa áætluninni þar með lögformlega stöðu þannig að áætlunin, sem síðan væri lögð fyrir Alþingi, væri gerð af fagfólki sem hefði besta þekkingu á viðfangsefninu og yrði hún byggð á traustum grunni og á faglegum rökum. Sú verkefnisstjórn opnaði síðan ferlið allt, hleypti að að fólki sem er áhugasamt um verndun en líka því sem hefur áhuga á nýtingu orkukosta okkar, hvort sem er á sviði jarðhita eða vatnsafls.

Með því var broti blað í vinnu varðandi rammaáætlun og hún tekin mjög föstum tökum inn í framtíðina því að allir stjórnmálaflokkar voru meðvitaðir um að innan þeirra raða væru mjög skiptar skoðanir um það hvaða leiðir ætti að fara, hvað ætti að nýta. Ég er þeirrar skoðunar að að reyna eigi að vinna málið á þeirri forsendu að við eigum að byggja upp, að það sé ákveðin „synergía“, svo ég sletti nú, á milli nýtingar- og verndunarsjónarmiða. Það mundi grundvallast á því að við skoðuðum málið út frá náttúrunni en líka út frá því hvaða möguleikar væru fyrir okkur Íslendinga til að halda áfram að byggja upp þekkingu á sviði orkurannsókna, vísindarannsókna sem tengjast orkuöflun. Jafnframt ætluðum við að halda áfram að byggja upp hagvöxt. Það er óhjákvæmilegt þegar við ræðum um að auka hagvöxt hér á Íslandi að segja til um hvaða leiðir við ætlum að fara varðandi orkuöflun. Þá er ég ekki að tala um orkuöflun eingöngu á sviði uppbyggingar álvera heldur líka varðandi umhverfisvæna orku, að við getum verið í samkeppni við aðrar þjóðir um að fá hingað störf sem skipta okkur máli á sviði ýmissa nýsköpunarstarfa, hvort sem þau tengjast gagnaverum eða öðru, gagnaverum sem við höfum því miður misst vegna mikils ágreinings innan stjórnarflokkanna. Þau fóru m.a. til Svíþjóðar vegna þess að þar var ekki hringlandaháttur í stjórnarstefnu. Þar geta menn gengið að því að ekki er verið að breyta lögum eftir á, hvað þá að þar séu flókin skattkerfi eins og búið er að koma upp hér mjög markvisst síðustu þrjú, fjögur árin.

Þegar við lítum á söguna var oft þrýstingur í ferlinu öllu um að breyta þessu. Þá vildu bæði umhverfisverndarsinnarnir og nýtingarfólkið hafa puttana meira í þessum málum en stjórnmálamenn létu ekki undan því að breyta hinu faglega ferli. Það er til fyrirmyndar fyrir stjórnmálin og fyrir Alþingi að við héldum utan um verkefnið saman, við gerðum það saman. Hvað gerir verkefnisstjórnin síðan þegar hún hefur staðið í hinu umfangsmikla samráðsferli við marga tugi manna? Hún skilar tillögum til ríkisstjórnarinnar í júlí 2011, að minnir mig, og þá byrjar ballið. Það var sorglegt að heyra það í gær að menn, ekki síst í stjórnarmeirihlutanum, töluðu um að það yrði að reyna að viðhalda sátt. Ég held að eina sáttin sem stjórnarflokkarnir lögðu sig fram um að varðveita hafi verið sáttin við ríkisstjórnarborðið, enda vita þeir það sem fylgjast með stjórnmálum að þar er hver höndin upp á móti annarri hvort sem við nefnum stórmál eins og orku- og umhverfismál, fiskveiðistjórnarmál eða stjórnarskrána, svo ég tali nú ekki um ýmis önnur verkefni sem hafa hikstað. Hægt er að nefna umsóknarferlið varðandi ESB, en það er önnur saga.

Hvað gerðist í júlí 2011? Þá fóru tillögurnar til ríkisstjórnar. Eftir mjög gegnsætt ferli í ríflega 13 ár lokaðist ferlið. Þá var allt sett á bak við luktar dyr. (Gripið fram í: Þöggun.) Hér er kallað fram í „þöggun“. Já, það er það að mörgu leyti og það er kannski engin nýlunda. Við upplifum ákveðna tegund þöggunar í svo mörgum málum. Ég nefndi stjórnarskrána áðan, það vefst fyrir mér hvernig allt það ferli er og mér er auk þess mjög þungt fyrir brjósti þegar kemur að umræðunni um stjórnarskrána, en ég ætla að bíða með þá umræðu.

En hér er kallað fram í „þöggun“. Já, það var ákveðin þöggun eftir að verkefnisstjórnin skilaði af sér. Af hverju? Af því að við fengum engar upplýsingar. Alþingi fékk engar upplýsingar um það hvernig vinna ætti tillögurnar áfram. Svo gerðist það fyrr á þessu haustþingi að við fréttum allt í einu að gert hefði verið munnlegt samkomulag. Einn stjórnarþingmaður, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, missti það út úr sér að gert hefði verið munnlegt samkomulag um að ekki ætti að fara í fleiri virkjanir eða uppbyggingu á virkjunarkostum á kjörtímabilinu. Það kom öllum sem hér voru inni í opna skjöldu, en ekki síður Samtökum atvinnulífsins, svo ég tali ekki um hinn stóra aðilann á vinnumarkaðnum, ASÍ. Það kannaðist enginn við það. En þetta er dæmi um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar þegar hún þarf að fylgja málum eftir sem verið hafa í sáttafarvegi, þá þarf hún að rjúfa sáttina. Ríkisstjórnin gerði það sem sagt í júlí 2011 og í kjölfarið hófst algerlega ógegnsætt ferli á vettvangi tveggja ráðuneyta, ráðuneyta iðnaðarmála og umhverfismála. Sumarið 2011 voru 12 orkukostir færðir niður listann hjá verkefnisstjórninni og ýmist raðað í biðflokk eða verndarflokk í drögum að tillögu um rammaáætlun þrátt fyrir að verkefnisstjórnin hefði raðað þeim tillögum ofar. Síðan var efnt til umsagnarferlis eftir að ríkisstjórnin sjálf var búin að færa til kosti, svona aðeins til að hrista upp í kerfinu, til að halda sig ekki við sáttaferlið. Hún breytti 12 kostum og færði þá niður eða frá virkjunarmöguleikum yfir í bið eða algera vernd og síðan hófst aftur ógegnsæ vinnsla. Umsagnarferlið fór aftur af stað og flestir sem komið höfðu áður að málinu með sömu sjónarmið birtust þarna aftur og var handvalið aftur af hálfu ráðherranna í hinu ógegnsæja ferli og færðir til sex kostir til viðbótar, þannig að í rauninni voru 18 kostir í tillögum verkefnisstjórnar færðir á milli hólfa.

Það er líka kaldhæðnislegt að hlusta á suma stjórnarþingmenn tala um að við þurfum að stíga varlega til jarðar. Það var margoft sagt í gær, m.a. af hv. þm. Magnúsi Orra Schram, að við þyrftum að láta náttúruna njóta vafans. Þá á bara að ganga alla leið og setja allar jarðhitavirkjanirnar, ekki síst á Reykjanesinu, í biðflokk. Af hverju fylgja menn þá ekki eftir því tali sínu um að stíga varlega til jarðar gagnvart náttúrunni? Eða á náttúran á jarðhitasvæðum ekki að njóta vafans? Er það málið? Nei, það sýnir það og undirstrikar að það eru ekkert annað en pólitísk hrossakaup sem felast í því að halda þessari blessaðri ríkisstjórn saman fram að kosningum. Þá fá Vinstri grænir prik í kladdann fyrir það á kosningavetri að þeir reyndu að standa vörð um ákveðin sjónarmið. En í staðinn fyrir að nýta það tækifæri að halda sáttinni var bara hugsað um þrönga, pólitíska hagsmuni Vinstri grænna og Samfylkingar. Mér finnst synd að sjá það tækifæri fara forgörðum hér á þingi og verið er að geirnegla okkur öll niður sem hér erum inni varðandi ákveðið fyrirkomulag. Það er nefnilega pólitík. Hv. þm. Björn Valur Gíslason sagði, sem er alveg rétt: Pólitíkin á að stjórna þessu. Já, pólitíkin réði þessu nefnilega þannig að stjórnmálamennirnir áttuðu sig á því að það yrði ekki til hagsbóta fyrir náttúruna og það yrði ekki til hagsbóta fyrir fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir ef hér færi allt í háaloft einhvern tímann á þeim 13 árum sem rammaáætlunin var í vinnslu. Menn áttuðu sig á því þannig að pólitíkin tók þá pólitísku ákvörðun að setja málið í þann sáttafarveg sem nú hefur verið rofinn.

Þess vegna segi ég að mér finnst svo vont að sjá þetta tækifæri fljóta fram hjá og að stjórnmálaflokkarnir séu bundnir í báða skó, til dæmis gagnvart því að tryggja vonandi um aldur og ævi að ákveðnir staðir verði einfaldlega friðaðir sem metnir hafa verið sem heppilegir orkukostir í gegnum tíðina. Hægt er að nefna marga staði sem hefði verið svo gott að fá á hreint að við ætluðum ekki að virkja. En það hefði líka verið mjög gott að hafa þá á hreinu að við ætluðum að halda áfram að nýta þekkingu okkar sem við erum búin að byggja upp í marga áratugi varðandi orkuöflun á sviði vatnsaflsvirkjana. Við erum framarlega þegar kemur að þekkingu á sviði jarðhitarannsókna og leitað hefur verið til okkar vegna þeirra. En við erum líka framarlega á heimsvísu þegar kemur að þekkingu, rannsóknum og vísindum sem tengjast orkuöflun því að við höfum verið meðvituð um að taka tillit til náttúrunnar um leið og við höfum byggt upp samfélag sem skapað hefur skilyrði til að auka enn hagvöxt allt frá því að við ákváðum að fara í Írafoss- og Ljósafossvirkjanir, sem eru að mínu mati birtingarmynd þess hversu vel er hægt að standa að málum, að hafa samspil náttúru og nýtingar með þeim hætti að við getum öll, Íslendingar, verið stolt af. Ísland er nefnilega grænasta land í heimi. Við erum umhverfisvæn og það er til hagsbóta fyrir okkur að vera það áfram. Og það verðum við áfram með því að halda áfram að nýta ákveðin vatnsföll í hófi og í sátt við náttúruna. Ég tala hér um Holta- og Hvammsvirkjun.

Ég lýsi því yfir að ég hef efasemdir gagnvart virkjun í Urriðafossi. Ég get komið hingað og sagt alls konar hluti um það sem ég hef efasemdir um. Ég tók það sérstaklega fram ræðu minni í fyrri umræðu um málið að ég fagnaði sérstaklega friðuninni á Bitru, Grændal. En verkefnisstjórnin setti ekki Bitru þar. Ég hefði þurft að bíta í það súra ef farið hefði verið eftir tillögum verkefnisstjórnarinnar í því efni, ég hefði þurft að horfa upp á að Bitra væri hugsanlega sett í biðflokk. En það er nákvæmlega málið, það má ekki snúast um það að við togumst á um ákveðna virkjunarkosti sem við höfum skiptar skoðanir um. Þess vegna tókum við stjórnmálamenn þá ákvörðun á sínum tíma að setja málið í það ferli sem hefur að mínu mati hefur gefist vel allt þar til það komst í hendurnar á vinstri stjórninni sem raðaði niður eftir eigin geðþótta. Talað er um að stíga varlega til jarðar. Það var sorglegt að heyra að á fundi umhverfisnefndar í morgun hafi því verið hafnað að setja tillögu okkar sjálfstæðismanna á dagskrá, tillögu sem hefði að mínu mati einmitt sett málið í sáttafarveg á ný. Því var hafnað að setja tillöguna á dagskrá og taka hana til frekari umfjöllunar af því að ekki væri tími til þess.

Ég hef margoft heyrt það úr þessum ræðustól að það sé alltaf tími til að staldra við og hugsa um náttúruna. Hversu oft erum við ekki búin að hugsa um það? Ég er sannfærð um að til lengri tíma litið sé það farsælt, ekki fyrir síst þá kosti sem ég tel að eigi að falla undir verndun. Ég bið um að við setjum málið aftur í hendurnar á verkefnisstjórninni, það er að stíga varlega til jarðar. Þess vegna var það hjákátlegt í gær að hlusta á menn tala um að stíga varlega til jarðar, það þýðir að gera málið pólitískt með því að setja stopp á vatnsaflsvirkjanirnar, virkjanir eins og Holta- og Hvammsvirkjun og Norðlingaölduveitu. Engar framkvæmdir hafa verið rannsakaðar jafnmikið. Ekkert af þessu hefur verið rannsakað jafnmikið. Vatnsaflsvirkjanir eru miklu meira rannsakaðar en t.d. jarðhitavirkjanirnar á Reykjanesi. Svo segja stjórnarþingmenn að verið sé að stíga varlega til jarðar með því að setja stopp á þær framkvæmdir sem mest hafa verið rannsakaðar en halda samt áfram með þær framkvæmdir sem eru minna rannsakaðar. Mér finnst það vera mikill tvískinnungsháttur í öllum málflutningnum sem snertir þetta mikilvæga mál.

Ég sé að ég á einungis um hálfa mínútu eftir og er eiginlega rétt að byrja. Inngangurinn kominn hjá mér, en þetta er stórmál. Það er stórmál hvernig við í þinginu afgreiðum málið. Það er ekki tímaspursmál að afgreiða það fyrir áramót. Ég vona það að við gefum okkur tíma til að setjast niður til að ræða tillögu okkar sjálfstæðismanna eða tillögu hv. þingmanna frá Framsóknarflokknum, sem hafa því miður þá tröllatrú á mönnum að hægt verði að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar, en sjáum hvað setur. Málið verður að vera ábyrgð okkar og ábyrgð okkar er sú að við þurfum að vinna það betur (Forseti hringir.) og í mun meiri sátt. Virkjum sáttafarveginn að nýju.