141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðu hans. Það var mjög gagnlegt og upplýsandi að fá efnahagsáhrifin af þessu plaggi sem liggur fyrir því þau hafa lítið verið rædd. Ríkisstjórnarflokkarnir vilja t.d. lítið ræða þau og það er fyrst og fremst vegna þess, eins og ég kom inn á í andsvari áðan, að á meðan stefnan er að halda ríkisstjórninni saman með illu eða góðu þá blæðir þjóðarhag. Það er nú bara svo, virðulegi forseti.

Ég er alveg sammála því sem hv. þm. Jón Gunnarsson fór yfir um aukinn hagvöxt og fjölgun starfa og þau áhrif sem gætu komið fram af skynsamlegri nýtingu orkukosta okkar, en svo virðist vera og hefur verið um nokkurra áratuga skeið að vinstri menn skilji ekki uppbyggingu atvinnulífs, rekstur heimilis og hvað þá heldur niðurgreiðslu skulda. Ég tel að vinstri menn vilji raunverulegt atvinnuleysi. Þeir vilja hafa sem flesta undir sínum hatti og deila sjálfir út brauðmolum eins og hefur komið í ljós í fjárlagafrumvarpinu sem nú bíður 3. umr. Þetta er sorgleg staðreynd að horfa upp á og það er sorgleg staðreynd að ríkisstjórnin skuli fara fram með þetta virkjunarstopp rétt fyrir kosningar á meðan tækifærin renna okkur úr greipum.

Þess vegna spyr ég þingmanninn: Til hvaða ráða getum við gripið ef þetta verður neytt í gegnum þingið nú á síðustu vikum þess? Til hvaða ráða getum við gripið ef Vinstri grænir eru búnir að knýja Samfylkinguna til að samþykkja rammaáætlunina eins og hún liggur fyrir? Er ekki eina leiðin að heita því fyrir landsmenn alla að þessi mál verði tekin upp (Forseti hringir.) til endurskoðunar og farið með þau í þann farveg sem er búinn að vera friður um í 13 ár?