141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kom inn á það í máli mínu að í rauninni hefði ferlið í heild sinni verið mjög faglegt, eins og hv. þingmaður veit sjálf því að hún tók verulegan þátt í vinnu við það. Þegar málið kom inn til ríkisstjórnarinnar hefði hún auðvitað átt að fylgja því eftir með sama hætti en þá var gerður tvíhliða viðskiptasamningur milli ríkisstjórnarflokkanna eða einstakra þingmanna innan búðar sem leiddi af sér þessa niðurstöðu. Síðan er komið með þá niðurstöðu inn í þingið og því haldið statt og stöðugt fram að hún sé hluti af hinni faglegu nálgun og þeirri vinnu sem lagt var upp með en svo er auðvitað ekki. Bent hefur verið á það hér í umræðum og við vinnslu málsins. Eðlilegast væri að ríkisstjórnin tæki málið upp og kæmi síðan með það aftur inn í þingið þar sem sú nálgun yrði ofan á að vinna það á faglegum forsendum, vinna það út frá verkefnisstjórninni. Ég held að það væri heppilegra en að ráðast í þær breytingar sem hv. þingmaður vitnar hér til.

Síðan að seinni fyrirspurn hv. þingmanns, af hverju sá er hér stendur telji að ekki sé hægt að afgreiða þingsályktunartillöguna eins og hún liggur fyrir, þá held ég að svarið verði að bíða þangað til seinna því að í þessu andsvari nægir tíminn ekki.