141. löggjafarþing — 51. fundur,  12. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar. Ég spurði vegna þess að við höfum öll lesið frétt sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóvember 2012 þar sem fjallað er um þetta mál og stöðu þess innan ríkisstjórnarflokkanna. Fram kemur í fréttinni að Vinstri grænir hafi sagt að málið sem við ræðum sé þeirra ESB-mál, þeir muni ekki víkja neitt frá þeirri tillögu sem hér er lögð fram, annars sé ríkisstjórnarsamstarfið einfaldlega í hættu. Jafnframt kemur þar fram að virkjunarkostir í neðri hluti Þjórsár, sem fara í biðflokk samkvæmt þessari tillögu, séu þar ekki vegna djúprar sannfæringar um að frekari rannsóknir þurfi á laxastofninum heldur til að halda ríkisstjórninni saman.

Hv. þm. Ásmundur Einar Daðason var einu sinni í þingflokki Vinstri grænna. Getur hann staðfest að þetta mál sé ígildi ESB-málsins hjá Samfylkingunni? Er þetta réttur skilningur á stöðu málsins og í rauninni því að tillagan sé föst í þessum farvegi? Er það einfaldlega út af pólitík, til að halda ríkisstjórninni saman?