141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Enn og aftur hefur verið áhugavert að fylgjast með umræðunni. Eins og hv. þingmaður kom inn á hefur hæstv. ríkisstjórn tekist að fara í stríð. Ég held að hæstv. ríkisstjórn og forustumenn hennar, hæstv. ráðherrar Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon, séu búnir að fara í stríð við flesta ef ekki alla aðila í þjóðfélaginu, ég held að það sé ekkert eftir. Þetta hefur gengið svo langt. Þau hafa haft þann háttinn á að senda alla gagnrýni til föðurhúsanna og telja hana ómaklega og þau noti þannig orð í opinberri umræðu að ég hugsa að það væri í það minnsta freistandi fyrir virðulegan forseta að gera við það athugasemdir ef maður vitnaði beint í þau orð. Ég veit til dæmis ekki hvað virðulegi forseti mundi segja ef ég mundi segja að hv. þingmenn væru að ljúga. Það getur vel verið að forseti mundi telja það óeðlilegt — og réttilega er það svo — og að ekki væri við hæfi að segja það hér í ræðustól þingsins. Ég ætla því ekki að hafa það eftir sem hæstv. ráðherra sagði við forseta ASÍ í dag.

Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi tekið eftir fésbókarfærslu sem komin er í fjölmiðla frá fyrrverandi ráðherra Árna Páli Árnasyni þar sem hann fullyrðir að stjórnvöld hafi ekki að neinu leyti fylgt eftir efnahagsáætlun sem hann hafi haft í sinni tíð sem ráðherra og unnið að með það að markmiði að ná sátt milli allra aðila um grunnmarkmið efnahagsmála. Þeirri áætlun hafi verið kastað fyrir róða og nú sé alls engin formleg stefna um efnahagsáætlun landsins. (Forseti hringir.) Er hv. þingmaður sammála hv. þm. Árna Páli Árnasyni hvað þetta varðar?