141. löggjafarþing — 52. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[00:34]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Verkalýðsfélögin á Suðurlandi eru einfaldlega samhljóma forustu Alþýðusambands Íslands í mjög kjarnyrtum yfirlýsingum, afstöðu og skoðunum til núverandi hæstv. ríkisstjórnar, sem má í einu orði kallast óbrúkleg.

Það ætti að vera farið að vinna að stórskipahöfn í Þorlákshöfn í dag. Uppgjör á Helguvíkurhöfn og þeim mannvirkjum sem búið er að byggja þar, sem er annað mál, sem er álverksmiðja á því svæði, ætti að vera í fullri vinnslu. Nei, alls staðar eru settir öflugir klossar til að stöðva framgang mála, allt er sett í kæligeymslur. Óttinn er mikill við að taka ákvörðun og líka verkkvíðinn og viljaleysið við að vinna sig út úr vandamálunum í stað þess að skattleggja, skattleggja og skattleggja eins og tíðkast hefur síðustu missirin. Viljinn er enginn, getuleysið er algjört.

Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson segir, verið er að brenna upp aflið í fólkinu, möguleikana og von fólksins. Og hvaða líf á fólk sem er án vonar?