141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

beiðni nefndarmanna um gögn um fjárlög.

[10:48]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er rétt, það kom beiðni um að hv. fjárlaganefnd fengi aðgang að öllum þeim gögnum og minnisblöðum sem lægju að baki vinnu við gerð fjáraukalaga í ráðuneytinu. Við vildum gjarnan verða við þeirri ósk af eins mikilli jákvæðni og hægt var og fórum vandlega í gegnum þetta mál.

Svona beiðni hefur komið áður, það var held ég árið 2000 eða 2001 frá þáverandi hv. þingmanni og núverandi hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur. Á þeim tíma töldu menn ekki hægt að verða við þessari ósk meðan fjárlögin væru opin, heldur yrði opnað fyrir allan aðgang að gögnunum eftir að meðferð málsins væri lokið vegna þess að um vinnugögn væri að ræða. Það sem við vildum hins vegar gera var að ganga lengra en þessi fyrri úrskurður hafði í för með sér og að því unnum við þá sex daga sem hv. þingmaður nefnir sem við fórum fram yfir skilafrestinn. Það taka hreinlega önnur lög við, þ.e. lög um upplýsingamál, ef ég man þetta rétt, eftir 19. nóvember þannig að þá hefur hv. þingmaður fullan aðgang að þessum gögnum. Það er ástæðan fyrir því að þetta kom svona seint, það á bara annað við þegar fjáraukalögin hafa verið samþykkt.

Ég tek algjörlega á mig að því miður vorum við þessa sex umframdaga að vinna þetta mál vegna þess að við vildum koma til móts við beiðnina. Niðurstaða okkar var sú að ganga lengra en gert hefur verið hingað til og leggja það til að fjárlaganefnd fengi að skoða öll vinnugögn í tengslum við umfjöllun mála í trúnaði og þannig gæti hún uppfyllt skyldur sínar sem þingnefnd. Sú breyting er býsna stórt skref og þess vegna fórum við svona (Forseti hringir.) fram yfir. Ég biðst velvirðingar á því.