141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[11:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Án árangurs höfum við reynt að fá fram hvernig unnið var að undirbúningi þeirrar þingsályktunartillögu sem hér er á dagskrá. Við vitum að ríkisstjórnin fékk málið í hendurnar og hæstv. ráðherrar, umhverfisráðherra og atvinnu- og nýsköpunarráðherra, fóru síðan höndum um það og margoft hefur verið bent á hvernig það var gert. Við vitum að það var gert mjög einhliða. Sex virkjunum, sem áður höfðu verið í nýtingarflokki á grundvelli draganna að þingsályktunartillögu sem byggðist á vinnu verkefnisstjórnarinnar, var skyndilega ýtt út af borðinu með mjög hæpnum rökum, svo ekki sé meira sagt.

Ég hef þó velt því upp, vegna þess að ég hef viljað reyna að nálgast þetta efnislega og af sanngirni, að í raun og veru getum við litið þannig á að með sínum rökum hafi ríkisstjórnin tekið þá ákvörðun að færa þessa sex virkjunarkosti. Ég er ósammála þeim rökum og tel að þau séu mjög veik. Það er hægt að benda á það varðandi neðri hluta Þjórsár og marga aðra orkukosti.

Á sama tíma gerðist það að ríkisstjórnin hafði í höndunum efnislegar upplýsingar um aðra virkjunarkosti sem höfðu verið til að mynda í biðflokki. Ég hef nefnt í því sambandi bæði Hólmsárvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Þar voru komin fram ný gögn sem að öllu óbreyttu hefðu óhjákvæmilega leitt til að þessir virkjunarkostir hefðu farið með sama hætti úr biðflokki í nýtingarflokk. Þá vaknar spurningin: Af hverju gerðist það ekki? Af hverju voru þessir virkjunarkostir áfram í biðflokki? Ástæðan er mjög einföld: Það var engin efnisleg forsenda. Þetta var ekki skoðað á efnislegum forsendum. Það var leikurinn, það var leikritið sem var sett á fjalirnar. Niðurstaða hæstv. ríkisstjórnar var nefnilega fundin fyrir fram. Menn komust fyrst að niðurstöðu um að taka ætti virkjanir úr nýtingarflokki og setja í biðflokk og helst úr biðflokki í verndarflokk, en það mátti ekki skoða neina aðra kosti sem mögulega gátu farið til að mynda úr biðflokki í nýtingarflokk. Þetta á til dæmis við um Hólmsárvirkjun. Ég ætla að fara efnislega yfir þetta.

Við undirbúning málsins urðu þau mistök eins og fram hefur komið að menn höfðu ekki nýjustu gögn. Þau komu hins vegar fram við lok umræðunnar við vinnuna. Þá hefði verið kjörið fyrir ríkisstjórnina að skoða og meta með efnislegum hætti hvort þessi virkjunarkostur ætti þá ekki að fara í nýtingarflokk. Það hafði legið fyrir býsna jákvæð niðurstaða um Hólmsárvirkjun í 1. áfanga rammaáætlunar og á grundvelli hennar var síðan unnið að frekari rannsóknum og útfærslum á virkjun Hólmsár. Í apríl 2009 var farið að athuga þann möguleika að virkja Hólmsá um miðlunarlónið við Atley. Í raun og veru var verið að búa til nýja útfærslu á þessari virkjun sem hefði verulega minni umhverfisáhrif en sú útfærsla sem fyrst var metin í rammaáætluninni. Það er þetta atriði sem skiptir svo miklu máli að menn hafi í huga og hefði skipt svo miklu máli ef hæstv. ríkisstjórn hefði látið svo lítið að skoða gögnin, en það var ekki gert. Gögnin voru til staðar og þau voru meira að segja unnin í iðnaðarráðuneytinu. Iðnaðarráðuneytið sjálft vann þessi gögn upp í hendur hæstv. ráðherra þannig að það var hægur vandi fyrir þá að taka afstöðu til þeirra.

Það hefur verið sagt að óvissa hafi verið um áhrif virkjunarinnar á skóglendi. En þegar þetta er skoðað betur kemur fram að birkikjarr á þessu svæði þekur 17 ferkílómetra á rannsóknarsvæði Hólmsárvirkjunar. Af þessu kjarri sem þekur 17 ferkílómetra munu 0,42 ferkílómetrar fara undir vatn við myndun Atleyjarlóns. Það er þess vegna ekki rétt sem haldið hefur verið fram að einhver óvissa sé um áhrif virkjunarinnar á skóglendi eða frekari upplýsingar vanti. Það er ekki óvissa, það er búið að meta þetta og reikna út. Það vantar ekki frekari upplýsingar, þær liggja allar fyrir. Það liggur fyrir að áhrifin á t.d. birkiskóginn, sem er gert dálítið mikið með í umræðunni, eru sáralítil og óvissan er engin.

Það er þetta sem mér gremst við þessa vinnu, hún var svo einhliða. Það var greinilega þannig að fyrst var niðurstaða fundin og síðan búinn til einhvers konar málamyndarökstuðningur fyrir niðurstöðu ríkisstjórnarinnar. Með slíku háttalagi er grafið (Forseti hringir.) undan trúverðugleika þessarar aðferðafræði.