141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Nei, það er bara einfalt, hún er ekki hæf til þess. Við sjáum það, og ég veit að hv. þingmaður tekur undir það með mér, hvað varðar þessa taugaveiklun og það skringilega andrúmsloft sem er á milli stjórnarflokkanna, við skynjum það mjög vel víðs vegar í húsinu. Ríkisstjórnin, sem að mínu mati er lifandi dauð — það er samt þannig að þessi lifandi dauða ríkisstjórn getur valdið miklum óskunda því að hún er ekki fær eða bær til þess að leiða mál í jörð, segja bara við aðra formenn annarra stjórnmálaflokka: Getum við ekki sest niður, rætt saman, hugsað hvernig við getum klárað ákveðin stórmál? Hvort sem það er rammaáætlun eða önnur stórmál sem berast inn á þingið. Hún er einfaldlega ekki hæf til þess af því að hún eyðir öllum kröftum í innbyrðis deilur og þess vegna kannski ætti maður að skilja það að hún getur ekki sest niður með forustumönnum annarra stjórnmálaafla á þinginu.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu að hún hrekur alla í burtu sem eru ekki sammála þeim. Við erum með mýmörg dæmi þess. Hvað var gert við hv. þm. Jón Bjarnason þegar hann var ekki sammála — og ég gagnrýni Jón Bjarnason mjög fyrir það hvernig aðkoma hans var út af ESB-málum, eitthvað sem ég veit að hv. þingmaður tekur undir. En gott og vel, hann var samt ráðherra í ríkisstjórn en af því að hann hagaði sér ekki eins og hæstv. forsætisráðherra og nýsköpunarráðherra vildu var honum einfaldlega bolað út. Það sama má segja með hv. þm. Árna Pál Árnason, sem hefur haft mjög sjálfstæðar skoðanir á ákveðnum sviðum, ekki síst á sviði efnahagsmála, sett þær fram í mjög skýru máli, hann var heldur ekki nægilega leiðitamur eða þægur í bandi, honum var því að sjálfsögðu ýtt út af ríkisstjórnarborðinu.

Það er á þennan hátt sem ríkisstjórnin vinnur og þess vegna segi ég: Ég var pínulítið blaut á bak við eyrum að trúa því í einlægni að með því að samþykkja verkáætlunina og planið síðasta vetur, gæti ríkisstjórn Íslands, (Forseti hringir.) þessi vinstri ríkisstjórn unnið með heilbrigðum hætti út úr þeim tillögum sem komu frá verkefnisstjórninni. Þar er ég örg út í sjálfa mig að hafa treyst á ríkisstjórnina til að fylgja þessu annars mikilvæga máli eftir.