141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:52]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var áhugavert sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og ekki ólíkt honum að koma með aðra sýn í umræðuna.

Ég vildi spyrja hv. þingmann um það sem kom fram í lokaorðum hans, að í raun og veru mundi baráttan í framhaldinu verða við alþjóðleg umhverfisverndarsamtök sem mundu vilja að við gengjum lengra í að nýta endurnýjanlega orkugjafa okkar til handa mannkyninu öllu til að hægt væri að minnka áþjánina af kolabrennslu, dísilbrennslu og gasbrennslu í Evrópu til að mynda, þéttri byggð þar sem allar auðlindir væru búnar.

Það er líka áhugavert að velta fyrir sér hvort við mundum standa betur í slíkri baráttu utan eða innan ESB svo að það sé einn vinkill á þessu máli.

Það er alveg rétt sem kemur fram hjá hv. þingmanni að við búum við gríðarlega miklar náttúruauðlindir og mikla getu til þess að nýta þær á sjálfbæran hátt, endurnýjanlega orku, sem er auðvitað skynsamlegt í alþjóðlegu samhengi. Það má velta því fyrir sér hvort við höfum á undanförnum árum tapað þeirri stöðu okkar miðað við til dæmis Kyoto-samninginn og viðbótarákvæðið sem var kallað íslenska ákvæðið, sem var síðan fellt niður, um loftslagskvóta vegna þess að staða okkar er allt önnur.

Ég vildi heyra sjónarmið hv. þingmanns, hvort hann teldi að það yrði framtíðarbaráttan að sporna við því þegar þeir sem berjast fyrir umhverfisvernd í Evrópu færu að krefja okkur um að virkja meira til að hjálpa til (Forseti hringir.) við sífellt mengandi nærumhverfi þeirra.