141. löggjafarþing — 53. fundur,  14. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[19:22]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ágætt hjá hv. þingmanni að vekja athygli á þessu. Ég er þeirrar skoðunar að eftir að faghóparnir fjórir höfðu skilað röðun sinni á virkjunarkostum hafi ferlinu lokið. Síðan var framkvæmt eitthvað sem einn af meðlimum eins faghópsins hefur sagt mér að hafi átt að vera óformleg skoðanakönnun, og þá var öll sú vinna sem hafði farið fram látin lönd og leið og menn greiddu einhvern veginn atkvæði eftir tilfinningum sínum og út úr því kom niðurstaða sem var í algjörri andstöðu við það sem faghóparnir höfðu gert sjálfir.

Ég er þeirrar skoðunar að eftir að röðuninni var lokið og skýrslan gefin út, eða skrifuð, hafi þessari vinnu lokið. En þá tók við einhvers konar pólitík og tilfinningaflækjur hjá fólki þar sem niðurstaðan varð eitthvað sem ég tel að eigi ekki að nota til grundvallar, á engan hátt. Ef við höfum ekki aðferðafræðina, þ.e. hvar við ætlum að marka þessa flokka í nýtingu, bið og vernd, skulum við finna þá aðferðafræði. Ég mundi leggja það til ef ég væri í aðstöðu til þess, að sérfræðingar kæmu sér saman um aðferðafræðina þannig að þetta væri allt alveg hlutlægt í gegn. Auðvitað ráða alltaf einhverjar tilfinningar, auðvitað verður það alltaf svo, en þannig er bara lífið.