141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni. Það er mikill tími sem hefur farið í þetta mál og það mun fara mikill tími í að endurskoða það á næsta kjörtímabili fari svo að það verði samþykkt. Því miður er það svo, frú forseti, að þetta er ekki eina málið sem þarfnast talsverðrar endurskoðunar eftir setu núverandi ríkisstjórnar.

Við sjáum meðal annars í heilbrigðismálum hvernig niðurskurðurinn hefur verið þar, hann þarfnast endurskoðunar. Við sjáum í fleiri og fleiri málum sem ríkisstjórnin hefur sent frá sér, fleiri og fleiri málaflokkum, að þar er þörf á gríðarlegri endurskoðun. Það er mikið áhyggjuefni hvernig mál hafa almennt þróast. Þess vegna held ég, og hef sagt það, að skynsamlegast væri að menn settust aftur niður og reyndu að ná breiðari niðurstöðu í málið eins og er skynsamlegt með miklu fleiri mál hér á Alþingi en þetta mál sem við ræðum hér.