141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann um, sem hann kom reyndar ekki inn á í ræðu sinni, og snýr að því hvernig staðið var að röðun virkjunarkosta í biðflokk og nýtingarflokk og þær færslur sem áttu sér stað og ég hef gert athugasemdir við. Ég er margbúinn að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvernig standi á því að þingsályktunartillagan sé lögð fram svona. Hæstv. ráðherra hefur ekki séð sér fært að svara þeim spurningum þó að hún hafi setið hér í salnum.

Það sem vekur undrun mína eftir að hafa lesið meirihlutaálit hv. umhverfis- og samgöngunefndar er röksemdafærslan og þau varnaðarorð sem koma fram í meirihlutaálitinu sem snúa að virkjunum á háhitasvæðunum. Tökum bara sem dæmi Hverahlíðarvirkjun og virkjanirnar á Reykjanesskaga, þá kannski á Krýsuvíkursvæðinu. Hæstv. umhverfisráðherra svaraði því til í óundirbúnum fyrirspurnum í morgun að málið hafi ekki verið sent til umsagnar bara til skrauts, það hefði verið tekið mark á þeim umsögnum þegar ráðherrarnir unnu að þingsályktunartillögunni í ráðuneytum sínum.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hann á sæti í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, hvort ekki hafi komið umsagnir til umhverfis- og samgöngunefndar með ákveðnu ákalli eða beiðni um að setja þær virkjanir í biðflokk en ekki að halda þeim áfram í nýtingarflokki. Manni finnst blasa við að ekki sé samræmi í því að færa til dæmis báðar efri virkjanirnar í neðri hluta Þjórsár, Hvamms- og Holtavirkjun, úr nýtingarflokki í biðflokk, miðað við þau gögn sem liggja fyrir og hvað búið er að rannsaka þær mikið, en halda síðan Hverahlíðarvirkjun og virkjunum á háhitasvæðunum, eins og til að mynda á Reykjanesskaganum, í nýtingu. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort ekki hafi komið viðlíka gögn til umhverfis- og samgöngunefndar um þær virkjanir, gögn sem meirihlutaálitið ætti væntanlega að byggja á.