141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta um.- og samgn. (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Varðandi röðunina í flokka og vinnuna í umhverfis- og samgöngunefnd get ég bara sagt, og ég hef farið yfir það áður í ræðum mínum, að maður skynjaði strax í vinnu umhverfis- og samgöngunefndar að málið var ekki komið til umhverfis- og samgöngunefndar til að gera á því breytingar, það var ekki mikill vilji til þess. Þetta eru bara mín orð, ég persónulega upplifði vinnuna í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að ekki væri mikill vilji til að ráðast í breytingar, og ekki í þá átt sem hv. þingmaður nefnir, að setja háhitasvæðin að einhverju leyti í bið eða önnur í nýtingu.

Það var einfaldlega búið að semja um málið með ákveðnum hætti. Og þegar verið er að setja háhitasvæðin öll í nýtingu getur maður í raun lesið það út úr nefndarálitinu að það er uppfullt af samviskubiti yfir því, eins og einhverjir hafa komist að orði. Það er raunar verið að reyna að girða fyrir það alls staðar í nefndarálitinu vegna þess að menn skynjuðu strax að ekki hefði mælst vel fyrir ef allt hefði verið sett í bið eða vernd.

En á móti kemur að það hefur verið samið um málið þannig. Maður skynjaði það í nefndinni strax frá fyrsta degi að mjög lítill vilji var til að málið tæki efnislegum breytingum í meðförum nefndarinnar. Það var einfaldlega búið að semja um það á milli ákveðinna hópa og í bakherbergjum og við urðum vitni að því í aðdraganda þessa máls hversu lengi það dróst. Þegar búið var að semja um niðurstöðu þess var þingleg meðferð málsins kannski meira formsatriði, vil ég segja, ef þetta svarar spurningu hv. þingmanns.