141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[16:39]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér mál sem ég held að sé að bætast í flokk þeirra þingmála sem ríkisstjórnin hefur náð að klúðra. Þau eru að verða býsna mörg. Nú hefur tekist að klúðra máli sem almenn sátt hefur verið um til fjölda ára, sátt sem hélt í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sátt sem hélt í tíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, en þegar vinstri stjórnin komst til valda fór allt í háaloft. Það er að sjálfsögðu merki um að sagan endurtekur sig því að þegar vinstri flokkar starfa tveir saman er voðinn vís.

Við höfum rætt rammaáætlun í nokkra daga. Þetta er búin að vera að mínu viti mjög góð umræða, margt hefur komið fram, margt verið upplýst og menn eru margs vísari. Það er ástæða til að nefna að umræðan hefur gert að verkum að tími til að ræða önnur mál er aðeins minni fyrir áramót. Það er vegna þess að stjórnarflokkarnir ákváðu að þetta mál skyldi útrætt á þingi áður en önnur mál væru tekin á dagskrá, þar á meðal fjárlög. Það hefði verið leikandi hægt og var í raun boðið upp á það að fresta umræðu um rammaáætlun og klára hana á einum til tveimur dögum í janúar þannig að klára mætti önnur mál fyrir jól eða áramót. Það var hins vegar vilji stjórnarflokkanna að keyra þetta mál áfram á fullu gasi og sjá hvenær umræðan kláraðist. Þar af leiðandi er tíminn styttri til að klára önnur mál. Því miður sýnist mér að mörg ágæt mál muni því ekki ná fram að ganga, mál sem eru á verksviði annarra ráðherra og þingmannamál. En það er ákvörðun stjórnarmeirihlutans að forgangsraða hlutum svona og hlýtur þá að vera hans mál að finna út úr því hvernig hin málin verða kláruð.

Það er samt athyglisvert að það lá mikið á að klára fjárlögin í 2. umr. svo hægt væri að borga út laun um áramót. Hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra lagði mikla áherslu á það. Nú virðist vera búið að redda launaútborgun því að ekki virðist lengur liggja á að klára fjárlögin. Það er gott að menn hafa fundið leið út úr því.

Staða rammaáætlunar sem við ræðum hér er orðin sú að um hana ríkir ekki sátt og pólitísk fingraför eru mikil. Þessi fingraför munu að sjálfsögðu leiða til þess að trúverðugleiki hennar er minni en ella og munu væntanlega upphefjast innan skamms átök eða deilur um það hvort og hvernig eigi að breyta rammaáætlun. Tækifærið til að ná þessari sátt fór forgörðum en að sjálfsögðu koma ný tækifæri í staðinn. Við sjáum núna að breyta þarf ákveðnum atriðum varðandi umgjörðina að rammaáætlun. Það þarf að skoða vandlega lögin sem hún byggir á og að mínu viti þarf einnig að nálgast með skýrari hætti þær viðmiðanir sem faghóparnir og sérfræðingarnir sem um þetta fjalla starfa eftir. Það er mjög erfitt að horfa upp á það, þó að það sé nú í fyrsta sinn sem þetta er gert, að í raun hafi verið sett viðmið eða fundin aðferðafræði til þess að mæla hitt og þetta jafnóðum og sumt tókst ekki að mæla.

Ég held því miður að niðurlagið í ræðu hv. flutningsmanns þessa máls eða fyrirsvarsmanns sé byggt á misskilningi en þar segir, með leyfi forseta:

„Með samþykkt tillögunnar eru líkur á að sátt skapist um leikreglur í erfiðum deilum sem staðið hafa um landnýtingu undanfarna fjóra til fimm áratugi.“

Ég held því miður að þetta sé á misskilningi byggt, í það minnsta er þetta ekki sá tónn sem hefur heyrst í umræðunni á Alþingi. Það er einfaldlega vegna þess að það pólitíska inngrip sem hér varð hleypti þeirri sátt í uppnám. Það er hins vegar viðurkennt í þessari ræðu að bæta þarf ákveðnar rannsóknir, til dæmis samfélagsrannsóknir og þess háttar. Ég tel að einnig þurfi að skoða fleiri þætti.

Herra forseti. Þetta er gríðarlega stórt mál. Það er vont að það skuli vera komið í þennan farveg og það er enn verra (Forseti hringir.) að það skuli þróast í þá átt að standa í vegi fyrir öðrum málum á þinginu vegna þess að ríkisstjórnin (Forseti hringir.) leggur svo mikla áherslu á að klára mál sem er ekki háð neinni dagsetningu.