141. löggjafarþing — 54. fundur,  17. des. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[18:29]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og fyrir að minnast á ræðu sem hann hélt þegar mælt var fyrir málinu. Ég var við störf á vegum þingsins annars staðar og átti því miður ekki kost á að vera hér í salnum þegar það átti sér stað. Ég skal einfaldlega fletta upp ræðu hv. þingmanns og hlusta á hana mér til ánægju og yndisauka.

Það sem helst hefur verið rætt um hér í þingsalnum eru þeir kostir sem færðir voru til eftir að tillögu formanna faghópa og ráðuneyta var breytt í meðferð ráðherranna. En það er vegna þess að að mínu mati hefur ekki verið farið fram með fullnægjandi rökstuðning fyrir því af hverju virkjunarkostirnir allir þrír í Þjórsá eru settir í biðflokk. Ástæðan fyrir því að menn eru ekki sammála þessari aðferðafræði er sú að þetta eru þeir kostir sem eru hvað mest rannsakaðir af þeim kostum sem lágu fyrir. Þannig er staðan einfaldlega og kannski verðum við tvö, ég og hv. þm. Mörður Árnason, bara að vera sammála um að vera ósammála um þetta. En samt er afskaplega leiðinlegt — eða ég veit ekki hvort maður á að nota orðið dapurlegt — að finna að hin faglega niðurstaða og hið faglega ferli sem hefur verið í gangi í rúman áratug klárast ekki allt til enda í þingsalnum. Það er í raun það sem ég er að tala um í ræðum mínum um þetta gríðarlega mikilvæga mál.