141. löggjafarþing — 57. fundur,  19. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:51]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þessar málefnalegu spurningar. Þær eru margar og ég reyni að koma að þeim.

Auðvitað er það svo að við þurfum að gæta hófs í útgjöldum enn um stundir og það er mjög mikilvægt að við reynum að halda okkur við það að hallinn verði ekki meiri en 0,2% af vergri þjóðarframleiðslu. Það er trú mín að svo geti orðið.

Þar ber að hafa í huga að hagvaxtarhorfur á næsta ári eru miklum mun betri á Íslandi miðað við samanburðarlönd okkar og jafnt ASÍ sem og Hagstofan og aðrir sem reka puttann upp í loft til að athuga hagvöxt eru sammála um það efni. Vitaskuld er það svo að erfitt er að meta fjárþörf ýmissa verkefna sem eru ekki föst í hendi og þar nefnir hv. þingmaður innviði á Húsavíkursvæðinu. Eftir því sem ég best veit er verið að vinna að þeim málum innan fjármálaráðuneytisins og skoða þær leiðir sem þarf að fara, hvort heldur sem eru göng undir Húsavíkurhöfða eða vegalagning meðfram sjávarsíðu. Ég teldi að það væri á vissan hátt óábyrgt að vera að setja einhverja tölu út í loftið inn í fjárlög sem varðar þann lið þegar málið er ekki endanlega frá gengið.

Svo mætti nefna fleiri liði eins og Landspítala – háskólasjúkrahús sem jafnvel enn er verið að deila um hvernig eigi að fjármagna, hvort eigi að gera það með leiguliðun eða sem ríkisframkvæmd. Ég tel að fjárlagafrumvarpið eigi að sýna raunveruleg útgjöld en ekki ætluð útgjöld eins og þessi tvö dæmi.

Ég get svo svarað öðrum spurningum í seinni innkomu.