141. löggjafarþing — 58. fundur,  20. des. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:41]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við göngum nú til lokaatkvæðagreiðslu um fjárlög fyrir árið 2013. Það hlýtur að vera jákvætt að í þessum fjárlögum horfum við fram á mikinn bata á ríkissjóði sem náðst hefur á þessu kjörtímabili. Heildarjöfnuður með óreglulegum liðum var um 14,6% af vergri landsframleiðslu árið 2008. Á næsta ári, samkvæmt þeim tillögum sem hér er verið að afgreiða, verður heildarjöfnuðurinn einungis neikvæður um 0,2%. Þetta er stórkostlegur bati.

Á næsta ári mun heildarjöfnuður án óreglulegra liða verða jákvæður um a.m.k. 0,1%. Það er vegna þessa sem ég kalla þessi fjárlög sóknarfjárlög. Við erum farin að geta sótt fram. Við erum að setja fjármagn inn í spítalana, við erum að setja fjármagn inn í skólana, við erum að setja fjármagn inn í mikilvæg vaxtarverkefni í atvinnulífinu til að tryggja þéttan vöxt á næstu árum sem síðan mun skila ríkinu tekjum.

Þessi fjárlög eru góð tíðindi og við erum stolt af þessum árangri, en staðan er engu að síður viðkvæm og ég heiti á ykkur öll að tryggja jákvæðan heildarjöfnuð á næstu árum.