141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:33]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tel að frumvarpið sem við erum að fara að greiða atkvæði um sé ótækt til þinglegrar meðferðar. Frumvarpið girðir ekki fyrir möguleika vogunarsjóða til að misnota eignarhald sitt á bönkunum með því að sniðganga gjaldeyrishöftin og hreinsa út úr bönkunum. Eignarhald á bönkum gefur erlendum vogunarsjóðum einstakt tækifæri til að sniðganga gjaldeyrishöftin. Þeir hafa gert það með því meðal annars að fá bankana sína til að kaupa af sér lánasöfn úr þrotabúunum. Það gæti leitt til þess að bankarnir þurrkuðu upp gjaldeyrisvarasjóð þjóðarinnar og gengi krónunnar mundi hrynja. Vogunarsjóðir eru skammtímafjárfestar og vilja fyrst og fremst ná eignum sínum út (Forseti hringir.) og það geta þeir gert með því að auka innheimtuhörku og hækka vexti. (Forseti hringir.) Vexti á fjármálamörkuðum hér á landi ákveða bankarnir vegna þess að fjármálamarkaðurinn er fákeppnismarkaður.