141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[10:39]
Horfa

Þór Saari (Hr) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þetta er alveg ótrúlegt mál og því ber að sjálfsögðu að vísa frá. Það er verið að endurreisa hér ónýtt bankakerfi sem hefur valdið þjóðinni gríðarlegum búsifjum. Það á enn eftir að skilja að fjárfestingarbanka og viðskiptabanka sem er grundvallaratriði ef menn ætla að búa við stöðugt fjármálakerfi. Það ríkir fákeppni á fjármálamarkaði, það verður aldrei hægt að koma hér á eðlilegu vaxtaumhverfi meðan þessi fákeppni ríkir og það er allt óljóst með eignarhaldið á bönkunum. Þeir voru afhentir einkaaðilum rétt fyrir jól árið 2009 og nú er haldið áfram þeirri vegferð. Það er ótrúlegt, en það sem er ótrúlegast við þetta mál er að þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs taka þátt í þessu geimi. Það er mér gjörsamlega óskiljanlegt. Það er í rauninni þjóðhagslega hættulegt að halda áfram með málið í þessu ferli.