141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[13:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni andsvörin. Hvað varðar tap hlutafjáreigenda í hruninu verðum við að muna eftir því, og það var eitt af því sem ég lærði í viðskiptafræði, að hlutabréf eru áhættufjárfesting. Þú getur grætt mjög mikið á hlutabréfaeign þinni en líka tapað mjög miklu. Þetta hef ég alltaf haft að leiðarljósi og takmarkað mjög fjárfestingar mínar í hlutabréfum. Eigendur hlutabréfa þurfa að gera ráð fyrir tapi, en ég er sammála hv. þingmanni um að tap þeirra var gífurlegt í bankahruninu. Það er meðal annars vegna þess að hér voru ástundaðar miklar blekkingar sem urðu til þess að hlutabréfaverð hækkaði umtalsvert. Þeir sem seldu hlutabréf, sérstaklega frá 2007, vissu að þetta voru blekkingar sem voru notaðar til að hækka verð þeirra og vildu losna við þau áður en illa færi. Það var oft fólk sem ekki hafði mikið vit á hlutabréfum sem keypti þau og tapaði síðan öllu sínu í hruninu.

Sparifjáreigendur eru með neikvæða ávöxtun á sparifé sínu, ekki bara hér á landi heldur yfirleitt í heiminum. Þannig er það í kreppu, hv. þingmaður. Þegar bankarnir eru fullir af peningum sem m.a. urðu til í bóluhagkerfinu fyrir hrun er ávöxtun á sparifé auðvitað mjög lítil. (Forseti hringir.) Ég svara spurningunni um barnabætur á eftir.