141. löggjafarþing — 60. fundur,  21. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[13:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, það er vitað og allir vita að hlutabréfaeign er áhætta en hlutabréfaeign er einnig sparnaður, sparnaður þeirra sem leggja fyrir til þess. Það hrun sem varð hérna og sá forsendubrestur sem hér varð — ég held að hann sé hvergi annars staðar til. Það urðu nánast öll hlutabréf verðlaus. Með verðlaus á ég við núll. Ég ætla að vona að hv. þingmaður sé ekki að segja að þetta sé bara allt í lagi og menn hafi átt að vita þetta og gefi þeim langt nef. Menn gátu ekki vitað þetta. Þegar hv. þingmaður segir að hann hafi sjálfur ekki fjárfest í hlutabréfum vegna þess að hann vildi ekki taka áhættu þá tók fjöldi fólks áhættu en reiknaði ekki með svona hruni.

Það sem ég er að reyna að leggja áherslu á er að sparifjáreigendur fóru ekkert vel út úr þessari kreppu, það er langt í frá. Og að segja að þeir sem eru bæði með belti og axlabönd — það á kannski við um þvingaðan sparnað lífeyrissjóðanna þar sem sérfræðingar eru að vinna en það á ekki við um hinn almenna sparifjáreiganda, sem er nú að hverfa hér á landi vegna þess að það er ráðist á hann alla daga, bæði með sköttum og neikvæðri ávöxtun. Kannski er það markmiðið því ef sparnaðurinn er horfinn er heldur engin lán að veita. Það veit hv. þingmaður sem viðskiptafræðingur eða hagfræðingur að ef ekki er sparifjármyndun, ef fjármagn myndast ekki einhvers staðar, er heldur ekki hægt að lána og ef menn reyna það veldur það verðbólgu.

Ég spyr aftur um barnabæturnar, en innlán sem eiga að vera trygg hafa rýrnað og eru að rýrna og eru alls ekki trygg sem og hlutabréfaeign, stofnfjáreign og önnur sparnaðarform. Þetta hefur allt beðið verulegan hnekki. Ég vil gjarnan að hv. þingmaður lýsi því yfir (Forseti hringir.) að þetta fólk hafi tapað.