141. löggjafarþing — 61. fundur,  22. des. 2012.

sala á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

151. mál
[00:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra upplýsir hér að þetta hafi verið hvorki meira né minna en mikið afrek. Ástæðan fyrir því að ég spyr er einfaldlega vegna þess að þegar maður lítur á stöðuna eins og hún er í dag er náttúrlega alveg ljóst að til dæmis afkoma bankanna hefur verið afskaplega góð. Það hefur fyrst og fremst verið vegna þess að menn hafa verið að reikna upp eignasafnið þannig að í það minnsta einhver hefur hagnast á því að þau lánasöfn sem voru talin verðlítil og jafnvel allt að því verðlaus hafi ekki reynst vera það heldur þvert á móti.

Ég spyr líka vegna þess að til dæmis í tilfelli SpKef og Byrs þar sem var mjög erfitt að fá svör, og í rauninni er okkur þingmönnum gert ómögulegt að sinna skyldu okkar vegna þess að við fáum ekki svör við spurningum tengdum því, gaf hæstv. ráðherra þessarar ríkisstjórnar út yfirlýsingar um að það ferli allt saman yrði skattgreiðendum að kostnaðarlausu. Annað kom á daginn því það kostaði skattgreiðendur gríðarlega mikið.

Sömuleiðis má nefna að menn settu upp Bankasýslu ríkisins sem ég held að hafi gert margt alveg prýðilegt en það var ekki farið eftir lögum um hana. Hún átti að halda utan um þessa eignarhluta og kemur fram í ársskýrslu hennar 2010 að hún eigi að taka yfir SpKef og Byr en hæstv. ráðherra ákvað að fara með þetta allt saman sjálfur. Það mætti ætla að það væri frekar umdeilanlegt að fara ekki að lögum varðandi eiginfjárhlutfall. Það hefur verið staðfest að það var ekki gert og það er kannski ein af ástæðunum fyrir því að þessi kostnaður lagðist á landsmenn.

Ég ætla ekkert að fara í VBS-málið, það hefur sömuleiðis reynst kostnaðarsamt fyrir skattgreiðendur og ekki öll kurl komin til grafar. Ég verð að viðurkenna það, virðulegi forseti, að ég held að við ættum ekki bara að skoða það sem gerðist fyrir tíu árum, eða hvað það var, heldur líka hvað hefur gerst að undanförnu. Ég held að það sé hægt að læra mjög mikið af því og er ekki alveg viss um að niðurstaðan verði sú að þetta hafi allt saman verið stórkostlegt afrek.