141. löggjafarþing — 65. fundur,  15. jan. 2013.

náttúruvernd.

429. mál
[15:41]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það frumvarp til laga um náttúruvernd sem við ræðum hér í dag og hæstv. ráðherra fylgdi svo ágætlega úr hlaði er afar mikilvægt plagg. Þarna er tekið á mjög mörgum þáttum í náttúruvernd, búið vel um löggjöf sem hefur, eins og hefur komið fram í máli þingmanna hér í dag, staðið til alllengi og raunar verið byrjað á þótt í litlu væri á fyrri þingum þessa kjörtímabils. Það er ljóst af ræðum þingmanna hér fyrr í dag að að mínu viti er nokkur áhugi á málinu og eins nokkur vilji til þess að ná sameiginlegri lendingu í þessu stóra hagsmunamáli allrar þjóðarinnar.

Ég hef fylgst með umræðunum í dag og meðal annars tekið eftir því að nokkrir þingmenn hafa áhyggjur af ákvæðum um gildistöku, kostnað, umferð, almannarétt o.fl. Ég geri ráð fyrir að öll þessi atriði verði tekin fyrir í umhverfis- og samgöngunefnd og hlakka til að vinna að þeim þar.

Það er nefnilega afar mikilvægt, frú forseti, þegar við tölum til að mynda um umferð um land og um almannarétt að við horfum til sjónarmiða allrar tegundar umferðar. Það er gert mjög ágætlega að mínu viti í frumvarpinu. Þarna er komið inn á þætti eins og gangandi umferð, hjólandi, ríðandi og akandi. Þetta eru allt þættir sem við þurfum að hafa býsna þétta löggjöf utan um, einkum og sér í lagi nú þegar ferðaþjónusta er á góðri leið með að verða að minnsta kosti einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs og atvinnu.

Ég er svo lánsamur að hafa notað mér alla þessa ferðamáta og jafnvel gerst svo kræfur að fara um sama landspottann hjólandi, gangandi og akandi. Eins og hv. þingmenn vita eru það ólíkar upplifanir en ég tek sérstaklega undir það sem hefur komið fram í máli ræðumanna og hæstv. ráðherra áðan, allir þeir aðilar sem taka þátt í ferðamennsku og ferðast um landið eru í grundvallaratriðum náttúruunnendur, aðilar sem hafa áhuga á landinu, hvort sem þetta eru Íslendingar eða fólk sem kemur hingað sem ferðamenn. Við eigum að tryggja með þessari löggjöf að aðgengi allra hópa að landinu okkar sé okkur til sóma og þessum einstaklingum og þjóðinni allri til nokkurs gagns.

Ég hlakka til, frú forseti, að fjalla um þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd og mun leggja mitt af mörkum til að málið geti fengið þar farsælan framgang.