141. löggjafarþing — 66. fundur,  16. jan. 2013.

skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

417. mál
[16:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá langar mig til að spyrja hv. þingmann hvernig hann líti á frelsi einstaklingsins, t.d. útgerðarmanns þar sem eru bara ein samtök sem ríkið talar við, LÍÚ, Landssamband íslenskra útgerðarmanna. Hvernig lítur hann á það að ekki séu til önnur samtök útgerðarmanna sem menn vildu kannski frekar vera í? Hvernig er hægt að skipta? Segjum að hópur útgerðarmanna stofni félag og vilji semja við ríkið og annað slíkt og gæta hagsmuna sinna í gegnum annað félag, LÍÚ2. Hvernig fara skiptin fram, hvernig hættir LÍÚ að vera hálfopinber stjórnsýsla eins og er í dag?

Ég tel að menn hafi farið afskaplega einfalda leið til að innheimta félagsgjöld og láta liðið borga inn í stéttarfélögin og hagsmunasamtökin. Þá leið að setja lög um það og skylda menn með lögum til að greiða til ákveðinna félaga. Þetta á við um stéttarfélög opinberra starfsmanna í mjög ríkum mæli. Þar er engin umræða um hvort menn vilji stofna stéttarfélög til að berjast fyrir hag sínum. Þetta á líka við um bændur og sjómenn. Við erum hérna að afnema ákveðið einn anga af þessu kerfi þar sem meira að segja bönkunum var falið að innheimta. Ég kem inn á það í ræðu á eftir. Ég tel að þetta sé mjög mikið álag og árás á frelsi einstaklingsins til að stofna félög eða vera utan félaga sem stjórnarskráin á að tryggja. Ég get ekki sagt að hagur ríkisvaldsins af því að semja við ákveðin stéttarfélög og ákveðna hagsmunaaðila vegi svo þungt að það eigi að fórna þessu frelsi einstaklingsins á því altari.