141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

endurskoðun stjórnarskrárinnar.

[10:52]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Á þessu kjörtímabili hefur mikið verið talað um sjálfstæði þingsins og í miklu meira mæli en áður um aðskilnað framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Það hefur sýnt sig í mörgu. Áður fyrr var allt borið undir þá sem sátu í Stjórnarráðinu áður en þingið þokaðist nokkuð áfram. Nú er sjálfstæði þingsins orðið mjög áberandi og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekkert samband við forsætisráðuneytið eða ríkisstjórn eða ráðherra um framgang þessa máls eða hvernig eigi að halda á því. Það vill bara svo til að vilji minn og óskir fara saman við það sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vill gera og halda á þessu máli með þeim hætti að það verði helst hægt að ljúka því.

Auðvitað er best að um þetta mál náist sem mest sátt. Ég tel að verið sé að reyna að gera það. Mér skilst að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sé að tala við forustumenn stjórnarandstöðunnar og ég held að menn ættu þá að einhenda sér í það og ljúka skoðun á því hvernig stjórnarandstaðan vill halda á þessu máli, vita hvort hægt sé að komast að sameiginlegri niðurstöðu (Forseti hringir.) en ekki benda á þá sem hér stendur og segja að ég vilji halda á málinu með þessum eða hinum hættinum. Málið er í höndum þingsins. Er það ekki rétt, hv. þingmaður?