141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

orð forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[11:20]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Að því er varðar örlög míns góða vinar, hv. þm. Jóns Bjarnasonar, hefur formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs skýrt það mjög rækilega.

Hins vegar held ég að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ættu að horfa sér nær þegar þeir eru að tala um einveldistilburði og að menn séu niðurlægðir hér með því að vera lamdir til hlýðni. Eru þeir búnir að gleyma því hvernig þeir voru tuskaðir til af fyrrum formanni Sjálfstæðisflokksins og barðir í grasið í hverju einasta máli (Gripið fram í.) þar sem þess þurfti til að þeir hlýddu skipun að ofan? Sá bragur hefur gjörsamlega horfið undir forustu hæstv. forseta. Þingið er miklu sjálfstæðara en áður.

Að því er varðar svo það sem hv. þm. Ásmundur Einar Daðason sagði áðan, hann talaði eins og að hér á þinginu sætu einhverjar lufsur og það þyrfti ekki annað starandi augnaráð hæstv. forsætisráðherra til þess að þingmenn lytu í gras. Hv. þingmaður talar um að ganga svipugöngin. Ja, við sjáum dæmið af hv. þingmanni, við vitum hvert svipugöngin leiða, (Forseti hringir.) þau leiða til Framsóknar.