141. löggjafarþing — 67. fundur,  17. jan. 2013.

fjölmiðlar.

490. mál
[14:58]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga frá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra um breytingar á lögum um fjölmiðla. Þetta er ekkert ólíkt því sem við í hv. allsherjar- og menntamálanefnd höfum fjallað um áður. Ég get þó ekki orða bundist hér í upphafi áður en ég fer inn í efnislega umræðu og kem inn á það sem fyrri ræðumenn höfðu á orði um áfengisauglýsingar. Ég hjó eftir því að einn ræðumaður, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, sagði að það væri bara Sjálfstæðisflokkurinn sem stæði gegn því að sett yrði bann við auglýsingum og setti fram þá skoðun að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki hafa aga á „selskapinu“. Það er alveg rétt, Sjálfstæðisflokkurinn vill hafa ákveðið frelsi. En það er fjarri lagi að við viljum ekki hafa reglur á þessu. Talandi um málþóf eða ekki málþóf verð ég nú að segja að færa má rök fyrir því að stjórnarandstaðan þurfi einmitt að hafa tækifæri til að koma í veg fyrir að vitlaus mál, eins og það frumvarp sem tengist áfengisauglýsingabanni, nái fram að ganga. Af hverju segi ég það? Jú, meðal annars út af því sem liggur fyrir af hálfu fagnefndar — ekki af hálfu stjórnmálamanna sem hafa ákveðnar skoðanir á málinu — sem þáverandi fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, skipaði. Sú fagnefnd, með ýmsa sérfræðinga innan sinna raða, setti fram þá niðurstöðu að heimila ætti áfengisauglýsingar með mjög skýrum takmörkunum og fara öfuga leið við það sem núverandi ríkisstjórn er að gera.

Ríkisstjórnin hefur haft tækifæri til að móta reglur en hún fer frekar leið hafta. Það virðist vera viðtekin venja hjá ríkisstjórninni og stundum með fulltingi þingmanna úr Framsóknarflokknum og annars staðar frá. Mér finnst það miður. Þetta er eins og ég mundi halda því fram um Framsóknarflokkinn að hann væri á móti frjálsum viðskiptum, sérstaklega varðandi landbúnaðarafurðir, og væri alltaf að fara gegn neytendum. Við vitum að það er fjarri lagi. Málflutningur af þessu tagi er ekki boðlegur.

Það er sama hvað við höfum reynt í sambandi við umrætt frumvarp um áfengisauglýsingar, af því að þetta er líka til umfjöllunar í allsherjar- og menntamálanefnd, tengist beint og óbeint því frumvarpi sem hæstv. menntamálaráðherra hefur mælt fyrir, þá höfum við ekki fengið næg tækifæri til að fara gaumgæfilega ofan í aðrar tillögur, það hefur ekki mátt ræða það. Það er önnur saga. Þetta vildi ég sagt hafa hvað þetta varðar en fyrst og fremst vil ég draga fram stóru myndina af sýn minni varðandi fjölmiðlana. Auðvitað hafa skoðanir þróast og að hluta til breyst í gegnum árin, líka í ljósi reynslunnar af umræðunni, sem oft og tíðum hefur verið erfið, um eignarhald á fjölmiðlum o.s.frv.

Hvað er það sem maður reynir að hafa að leiðarljósi? Lykilatriðið í lýðræðissamfélagi er að ríkisvaldið virði sjálfstæði fjölmiðla, sjálfstæði fjórða valdsins sem svo er kallað í öllum eðlilegum lýðræðisríkjum. Við viljum í öðru lagi vera með ákveðinn sveigjanleika sem tryggir samkeppni á fjölmiðlamarkaði og bestu þjónustu við almenning og taki samhliða því tillit til fjölbreytni og fjölræðis í fjölmiðlum. Í síðasta lagi viljum við tryggja að almannahagsmunir verði í fyrirrúmi með því fororði að rekstrarumhverfi fjölmiðla verði að vera lífvænlegt. Allt hefur þetta breyst, umræðan hefur breyst og nálgunin hefur að vissu leyti breyst varðandi fjölmiðla í gegnum tíðina.

Erfiðu átökin í upphafi þessarar aldar, þ.e. 2003 og 2004, sem síðan leiddu til ákveðinnar þverpólitískrar niðurstöðu 2005, hafa kennt manni eitt og annað. Hluti af því er að mínu mati að þáverandi stjórnarandstaða gerði mistök í því að vilja ekki ljá máls á því að settur yrði rammi utan um eignarhald á fjölmiðlum, sem ég held að hefði verið eðlilegt að gera á þeim tíma. Menn verða að viðurkenna í ljósi sögunnar að það hafi verið mistök af hálfu þáverandi stjórnarandstöðuflokka, Vinstri grænna og Samfylkingar, sem komu í veg fyrir það. Síðan reyndum við að vinna þetta áfram, lögðum fram frumvarp, umdeilt, um Ríkisútvarpið sem var samþykkt, en það mátti ekki samþykkja þetta samhliða því. Ég man mjög vel að einn þingmaður stjórnarandstöðunnar var á þeim tíma mjög á móti því að þessi frumvörp færu bæði fram — þó að þau væru í lagi hvort fyrir sig máttu þau bara ekki einhverra hluta vegna bæði ná fram að ganga.

Ég held að það hafi líka verið mistök að hafa ekki náð að afgreiða þá þverpólitísku niðurstöðu sem fengin var fram eftir þessi miklu átök 2003 og 2004 og getið er í greinargerð með frumvarpinu. Það hefði falið í sér ákveðnar reglur varðandi eignarhaldið, vægari en þær sem voru settar fram árið 2003 en engu að síður mjög skýrar. Þetta fékkst ekki í gegn. Þetta er hluti af því sem menn verða að horfast í augu við og er hluti af sögunni. Þá reynir maður að hugsa: Allt í lagi, maður hefði viljað sjá hlutina gerða öðruvísi, það eru líka mistök sem ég og fleiri höfum gert á þessu sviði. Þá þarf bara að reyna að átta sig á hvað hentar okkur á þeim markaði sem er í dag til að tryggja þau leiðarljós sem ég nefndi í upphafi og hafa með það að gera að við verðum að tryggja sveigjanleika og samkeppni og sem besta þjónustu við almenning, tryggja fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum og að almannahagsmunir séu í fyrirrúmi þó þannig að rekstrarumhverfi fjölmiðla verði skaplegt og lífvænlegt.

Þegar við lesum greinargerðina með frumvarpinu má sjá að svolitlu púðri er eytt í hina mikilvægu þverpólitísku niðurstöðu 2005 og ég held að það sé rétt til að skýra samhengi hlutanna. Við sjáum líka að nefndin er að hluta til skipuð sömu aðilum, þ.e. Karli Axelssyni og Elfu Ýri Gylfadóttur sem kom líka að þessu á sínum tíma. Þar af leiðandi erum við með ákveðið samhengi varðandi reynslu og aðkomu þeirra aðila sem áður voru. Ég held að það sé líka af hinu góða, fyrir utan þá þekkingu sem þessir tveir tilteknu einstaklingar hafa á fjölmiðlamarkaðnum. Einhverjir kunna að segja: Ertu að segja að þið viljið ekki lengur lög um skýrt eignarhald á fjölmiðlum? Ég er ekki að segja það. Það skiptir miklu máli að við tryggjum ramma þar sem höfð er að leiðarljósi sú fjölbreytni sem verður að vera í fjölmiðlum.

Ég held hins vegar að markaðurinn hafi breyst verulega frá árinu 2005 og þá ekki síst með tilliti til alþjóðlegra tenginga. Sá rammi sem við ræddum hefði dugað þá, en ég held að við verðum að skoða samhengi hlutanna núna, eins og gert er í umræddu frumvarpi. Ég áskil mér rétt til að fara afar vel yfir frumvarpið með Samkeppniseftirlitinu því að ég sé að kostnaðarálitið og umsögnin er mjög óljós. Gefið er í skyn að fjölga þurfi fólki hjá Samkeppniseftirlitinu ef fylgja á þessu eftir. Ég hefði nú haldið að ef fylgja á þessu eftir verði svo að vera þannig að við verðum að sjá hvort þetta frumvarp feli í sér raunhæfar tillögur varðandi Samkeppniseftirlitið og fá það til að tjá sig um það.

Á sínum tíma snerist umræðan svolítið um það, svo að maður vísi til þess sem gerist erlendis, að við vildum ekki ástand eins og til dæmis á Ítalíu þar sem Berlusconi hefur mikil ítök í ljósi krafta og auðs annars staðar úr samfélaginu, úr öðrum rekstri og af öðrum markaði. Byggjum við undir það með þessu frumvarpi að slíkt gerst aftur á Íslandi? Er það æskilegt? Er það kannski óhjákvæmilegt? Þetta er hlutur sem ég held að við verðum að fara vel yfir og spyrja okkur líka að því hvort hægt sé að tala um fjölmiðlamarkað sem eina heild, þ.e. veffjölmiðla, prentmiðla, ljósvakamiðla, þetta sé bara einn fjölmiðlamarkaður, eða eru þetta allt ólíkir fjölmiðlar sem meta þarf út frá ólíkum markaði? Þetta er hlutur sem við í nefndinni verðum að fara vel yfir. Það er alla vega skýrt í mínum huga að við verðum að skapa ramma sem tryggir að samkeppni sé góð og gegnsæi ríki á markaði en svo hefur oft og tíðum ekki verið.

Ég er alls ekki neikvæð á það frumvarp sem liggur fyrir, ég vil einfaldlega komast að því hvort það er raunhæft. Er þetta tæki fyrir okkur til að tryggja að almannahagsmunir verði í fyrirrúmi þegar kemur að fjölmiðlum? Ég vil líka draga fram það sem aðrir hafa gert, þ.e. Ríkisútvarpið. Það er hárrétt sem hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sagði um Ríkisútvarpið áðan. Við höfum kannski að hluta til deilt sömu skoðun varðandi Ríkisútvarpið, það að takmarka Ríkisútvarpið á auglýsingamarkaði hýtur að vera í umræðunni í samhengi við það að tryggja fjölbreytni á markaði, sérstaklega þegar markaðurinn er lítill og fábreyttur. Það er erfitt að reka og viðhalda fjölmiðlum án þess að til staðar sé auglýsingamarkaður fyrir aðra fjölmiðla en opinbera.

Ríkisútvarpið kemur óhjákvæmilega inn í þessa umræðu, eins og það er í dag, hvort við séum að tala um eitthvert útópískt ástand, þ.e. ástandið hjá frjálsu fjölmiðlunum, að ekki sé raunhæft að tala um eðlilega samkeppni þegar Ríkisútvarpið er uppbyggt eins og það er. Ég vil þó draga fram að ég held að sú vinna sem hefur átt sér stað í nefndinni — og formaður á þakkir skildar hvað varðar umfjöllun í því máli er varðar Ríkisútvarpið — hafi þokað hlutunum í rétta átt. Stigin hafa verið skref sem eru stór í ljósi sögunnar. Þó að manni finnist þau kannski ekki stór í augnablikinu eru þau samt tiltölulega merkileg. Ég geri ráð fyrir að við höldum áfram að vinna að þessu máli er tengist Ríkisútvarpinu og mun ég leggja mitt af mörkum hvað það varðar.

Hagsmunirnir eru miklir þegar kemur að fjölmiðlum því að þeir skipta okkur svo miklu máli í því lýðræðissamfélagi sem við viljum tilheyra og byggja upp.

Ég velti líka fyrir mér tæknilegum hlutum sem meðal annars hafa komið til umfjöllunar varðandi Ríkisútvarpið, þ.e. dreifikerfið. Getur verið að uppbygging dreifikerfis og hverjir það eru sem byggja það upp geti truflað það markmið að samkeppni ríki á fjölmiðlamarkaði, að eignarhald verði gegnsætt, að komið verði í veg fyrir yfirburði eins tiltekins aðila á fjölmiðlamarkaði? Verðum við að draga það fram hvernig uppbygging dreifikerfa er og hvernig hún er fyrirhuguð? Getur uppbygging dreifikerfa og eignarhald á þeim stuðlað að ójafnvægi á fjölmiðlamarkaði?

Þetta eru þær hugleiðingar sem ég vildi setja fram við 1. umr. Ég tek undir það sem sagt hefur verið: Að hluta til verðum við að minnsta kosti að senda það ákvæði sem fjallar um samrunaeftirlitið og þau skilyrði sem þurfa að vera til þess að breyta yfirráðum á fjölmiðlum til frambúðar — við þurfum að fá umsagnir frá efnahags- og viðskiptanefnd hvað það atriði varðar.

Ég velti líka fyrir mér þeirri frumkvæðisskyldu sem hugsanlega kann að hvíla á fjölmiðlanefnd varðandi það markmið að halda í fjölbreytni og fjölræði á fjölmiðlum. Mun hún hafa einhverja frumkvæðisskyldu í ljósi þessa frumvarps? Hvernig sér fjölmiðlanefndin fyrir sér að hún geti gegnt hlutverki sínu innan þess ramma sem við ræðum hér?

Ég hefði gjarnan viljað ræða mörg önnur ákvæði. Við þurfum að fara vel yfir 8. gr. og ekki síður 9. gr. í frumvarpinu, þær tengjast hatursáróðri. Við þurfum að þora að tala um slíkan áróður, hluti af þeirri umræðu er hvernig samfélagi við viljum búa í og ekki síður hvort hatursáróður, eins og hann hefur birst, grafi undan grundvallarreglum réttarríkis þegar kemur að umfjöllun um fólk og þegar kemur að umfjöllun um fyrirtæki. Hatursáróðursákvæðið í 9. gr. hefur mjög mikilvæga þýðingu í því samhengi að tryggja þær grundvallarreglur sem við höfum fram til þessa staðið vörð um og eru í núgildandi stjórnarskrá. Ég vona að þeim grundvallarreglum verði ekki breytt í meðförum þingsins vegna nýrrar stjórnarskrár.

Að öllu þessu sögðu geri ég ráð fyrir að við munum fá marga gesti á fundi nefndarinnar og fara málefnalega yfir þetta mikilvæga mál. Það hefur í samhengi hlutanna þýðingu fyrir okkur sem erum hér á þingi að geta afgreitt þetta þvert á flokka, vonandi ná menn þannig samstöðu um það. Við þurfum að afgreiða þetta af raunsæi sem stuðlar að þeim markmiðum sem ég gat um í upphafi, að við höfum almannahagsmuni í fyrirrúmi þegar kemur að umræðu um fjölmiðla um leið og við sýnum skilning á því að við þurfum að hafa rekstrarumhverfi sem gerir fjölmiðlum kleift að lifa og starfa í íslensku samfélagi.