141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

skyldutrygging lífeyrisréttinda.

469. mál
[14:58]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Mósesdóttur fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við og fór meira að segja að bera saman gegnumstreymiskerfið og söfnunarkerfið og kosti og galla hvors tveggja, en þau eru í sjálfu sér ekkert mjög frábrugðin hvort öðru ef þau eru starfandi í einu landi, þ.e. ef menn flytja ekki ávöxtunina til annarra ríkja til að standa undir afborgunum til baka þegar að því kemur. En ég er ekki sáttur við það sem hv. þingmaður sagði um áhrif lífeyrissjóðanna á vexti í framtíðinni og öldrunarvandamálið.

Öldrunarvandamálið felst í því að það er sífellt fleira sprækt fólk hætt að vinna, fólk sem gæti alveg unnið. Auðvitað eigum við að hækka ellilífeyrisaldurinn fyrir þá sem vilja vinna þegar fólk er orðið svo miklu langlífara og er miklu sprækara fram eftir aldri en áður var. Fólk er miklu sprækara um sjötugt núna en það var áður um sextugt af einhverjum ástæðum; betra heilsufar og annað slíkt.

Það sem ég vil segja er að fyrst þegar lífeyrissjóðirnir byrja að starfa þá sullast inn peningar og iðgjöld, það eru fáir á lífeyri og þetta er eins konar skyldusparnaður þjóðarinnar og er skyldusparnaður. Síðan þegar lífeyrissjóðirnir hafa náð hámarki, sem verður væntanlega í kringum 2020–2030, fara þeir að greiða út jafnmikið í lífeyri og þeir taka inn í iðgjöldum. Þá hætta þeir að dæla peningum inn í atvinnulífið og til einstaklinga og fyrirtækja og fara jafnvel að taka peninga til baka. Þá verður skortur á lánsfé af því að innlendur sparnaður er mjög lítill. Þá hækka vextir. Vextir hækka þegar skortur verður á peningum vegna þess að lífeyrissjóðirnir soga peninga út úr atvinnulífinu í stað þess að dæla þeim inn í atvinnulífið eins og þeir hafa gert frá stofnun.