141. löggjafarþing — 68. fundur,  22. jan. 2013.

strandveiðar.

219. mál
[18:04]
Horfa

Flm. (Ólína Þorvarðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um strandveiðar og flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Mörður Árnason og Skúli Helgason.

Markmið frumvarpsins er að auka öryggi í strandveiðum og jafna aðstöðu þeirra sem stunda strandveiðar. Að auki að stuðla að sjálfbærum og vistvænum fiskveiðum með hóflegri sókn á fiskimiðin við strendur landsins, efla atvinnu og byggð í landinu og stuðla að jákvæðri samfélagsþróun, eins og fram kemur hér í 1. gr. frumvarpsins.

Þetta leggjum við til að gert verði með gagngerum endurbótum á svæðaskiptingu og fyrirkomulagi veiðanna. Frumvarpið gerir ráð fyrir að af því aflamagni sem ráðherra má samkvæmt lögum úthluta til strandveiða á hverju ári, það eru 6.700 tonn í núgildandi lögum, þá skuli heimildunum skipt jafnt milli allra þeirra sem uppfylla skilyrði laga um strandveiðileyfi.

Gert er ráð fyrir því að strandveiðarnar séu bundnar við tiltekin landsvæði og við tiltekið strandveiðitímabil frá 1. maí til 31. ágúst tiltekið ár, eins og er í núgildandi lögum, og að sjálfsögðu að óheimilt sé að framselja, leigja eða veðsetja strandveiðileyfi. Skilyrði fyrir útgáfu strandveiðileyfa samkvæmt þessu frumvarpi eru strangari en í núgildandi lögum, einkum varðandi eignarhlutinn.

Gert er ráð fyrir því að umsækjandi um strandveiðileyfi sé eigandi að strandveiðiskipi, að hann hafi ekki sótt um fleiri en eitt strandveiðileyfi samanlagt viðkomandi strandveiðitímabil, að eigandi skipsins sé lögskráður á það og að fiskiskip sé minna en 15 brúttótonn. Þá er einnig gert ráð fyrir því að veiðiferð standi ekki lengur en 14 klukkustundir, líkt og er í núgildandi lögum, að aldrei sé heimilt að hafa fleiri en þrjár handfærarúllur um borð og engin önnur veiðarfæri séu um borð. Heimilt sé að draga 650 kg í þorskígildum talið af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð og að strandveiðiafla skuli landað í löndunarhöfn viðkomandi strandveiðisvæðis. Frá útgáfudegi strandveiðileyfis sé fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum, svo drepið sé á helstu atriðum 7. gr. frumvarpsins.

Strandveiðar hófust í lok júní 2009 eftir að Alþingi hafði samþykkt ákvæði til bráðabirgða í lögum um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Veiðarnar voru festar í sessi ári síðar með breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Þegar þeim var komið á árið 2009 var boðað að á grunni reynslu og lærdóms sem draga mætti af strandveiðum yrði reynslan metin síðar og fyrirkomulag veiðanna endurskoðað í ljósi þess.

Í þessum tilgangi hafa verið gerðar úttektir á reynslunni af strandveiðunum, meðal annars á aflagæðum, sem sýna að strandveiðar eiga fullan rétt á sér sem valkostur við aðra útgerðarflokka. Úttekt Háskólaseturs Vestfjarða sem var unnin sumarið 2009 sýndi að veiðarnar hafa orðið til góðs í mörgum smærri byggðarlögum og verið íbúum og þeim sem að veiðunum koma búbót og ánægjuefni.

Þar með hafa strandveiðarnar sannað gildi sitt fyrir atvinnulíf í byggðum landsins sem sjálfbærar, vistvænar veiðar sem gætt hafa byggðirnar lífi og stuðlað að jákvæðri samfélagsþróun. Engu að síður hefur frá upphafi gætt ákveðinnar óánægju með áhrifin af svæðaskiptingu strandveiðanna sem og því að jafnræðisreglan sé ekki nægilega vel í heiðri höfð við framkvæmd veiðanna. Strax í 1. umr. um málið sumarið 2009 var varað við svokölluðum ólympískum veiðum sem beinni afleiðingu af þeirri ójöfnu aðstöðu sem bátar hafa til að sækja strandveiðiafla í þeim fjórum landshlutabundnu hafsvæðum sem lögin kveða á um, þ.e. á svæðum A, B, C og D.

Þessi hafsvæði henta misvel til strandveiða. Á svæði A sem liggur úti fyrir norðvestanverðu landinu eru gjöfulustu og nálægustu miðin. Flestir bátar sækja því um strandveiðileyfi á svæði A og þar er mesta sóknin, kappið og veiðiharkan þá fáu daga sem smábátarnir geta sótt strandveiðiafla á því svæði. Þetta hefur valdið vaxandi áhyggjum af öryggi smábátasjómanna vegna stífrar sóknar í misjöfnum veðrum, einkanlega á þessu tiltekna svæði. Aftur á móti eru bátar á öðrum svæðum færri og þeir hafa rýmra svigrúm til að sækja sinn afla. Þess eru dæmi að strandveiðibátar á svæði A hafi aðeins haft tvo daga til veiða áður en leyfilegt aflamagn hefur orðið uppurið á meðan bátar á öðrum svæðum hafa haft jafnvel á þriðju viku.

Markmiðið með þessu frumvarpi er ekki síst að draga úr þeirri áhættu og misskiptingu sem núverandi fyrirkomulag hefur leitt af sér að þessu leyti. Strandveiðar eru hugsaðar sem jákvæður valkostur við aðra útgerð og atvinnu yfir sumartímann. Þeim er ætlað að auka jafnræði og nýliðun í sjávarútvegi á sjálfbærum og vistvænum forsendum en þeim er ekki ætlað að ógna öryggi þeirra sem veiðarnar stunda eða stuðla að misskiptingu með tilheyrandi hættu á slælegri aflameðferð eða hroðvirknislegum veiðiaðferðum.

Þess vegna er hér lagt til að við upphaf hvers strandveiðitímabils verði opnað fyrir umsóknir um strandveiðileyfi í tvær vikur og þegar fyrir liggur hversu margir hafa sótt um og fengið leyfi verði heildaraflamagninu skipt jafnt á milli allra þeirra báta. Þetta magn sem hver og einn fær úthlutað getur verið breytilegt milli ára. Það er háð fjöldanum sem sækir um hverju sinni enda er ekki um varanlega úthlutun eða hlutdeild að ræða sem veitir nokkurn hefðarrétt af neinu tagi.

Samkvæmt 9. gr. frumvarpsins er ráðherra hvenær sem er heimilt að stöðva veiðarnar eða færa báta milli svæða eftir veiðiþoli svæða, enda gerir frumvarpið ráð fyrir að hvergi verði hvikað frá markmiðum umhverfis- og sjálfbærnisjónarmiða við framkvæmdina. Það hefur borið á því að sterkari útgerðaraðilar hafi gert út marga báta á hvert svæði í kappi við þá smábátasjómenn sem eru einir að sínum veiðum. Það samræmist illa markmiði laga um strandveiðar sem einstaklingsbundnar frjálsar handfæraveiðar smábátasjómanna við strendur landsins yfir sumartímann.

Af hálfu löggjafans eru strandveiðar ekki hugsaðar sem umfangsmikil útgerð en reynslan sýnir að þess eru dæmi að útgerðaraðilar geri út báta í umtalsverðum mæli. Jafnvel sé látið nægja að sýna fram á 1% eignarhald á báti til að uppfylla ákvæði laganna um að eigandi sé lögskráður á strandveiðibát. Því leggjum við til í 2. og 5. gr. frumvarpsins að um raunverulegt eignarhald sé að ræða, það er 51% eignarhlut.

Eins og fyrr segir var Háskólasetur Vestfjarða fengið til að gera úttekt á framgangi og áhrifum strandveiðanna eftir fyrsta sumarið 2009. Sú úttekt sýndi að almenn ánægja var með samfélagsleg áhrif veiðanna og almennt fyrirkomulag þeirra, ef undan er skilin gagnrýni sem kom fram á svæðaskiptinguna og áhrif hennar á öryggi sjómanna. Þessi úttekt leiddi í ljós að byggðasjónarmið hefðu náð fram og þetta fyrsta sumar dreifðust strandveiðar á 54 útgerðarstaði. Enn fremur náðust þau markmið að gefa fleirum en handhöfum kvóta möguleika á takmörkuðum veiðum í atvinnuskyni, að stuðla að nýliðun og að auðvelda fólki að afla sér reynslu og þekkingar. Úttektin sýndi að 2/3 hlutar þeirra sem stunduðu strandveiðarnar voru sjómenn að atvinnu, 40% höfðu yfir aflahlutdeild að ráða og nýliðar voru 20% útgerðaraðila.

Fiskistofa gerði síðan úttekt á gæðum strandveiðiafla sumarið 2011. Sú úttekt leiddi í ljós að strandveiðiflotinn kæmi vel út í samanburði við hina hefðbundnu dagróðrabáta og að ekki væri greinanlegur marktækur munur á milli þessara útgerðarflokka. Fram kom einnig að meðferð strandveiðiafla færi batnandi með aukinni reynslu þeirra sem veiðarnar stunda og gert var ráð fyrir að svo yrði enn frekar fyrir áhrif markaðarins vegna samhengis verðs og gæða.

Herra forseti. Ég vil bara segja að lokum að strandveiðarnar hafa sannað gildi sitt sem viðbót og valkostur í atvinnuflórunni. Þær hafa nú verið stundaðar í fjögur sumur og á þeim tíma hefur gefist ráðrúm til að meta og yfirvega kosti og ágalla við framkvæmd veiðanna. Þótt þær hafi sannanlega stuðlað að jákvæðri samfélagsþróun í dreifðum byggðum sem hafa átt undir högg að sækja undanfarna áratugi er hverjum manni ljóst að framkvæmdina má bæta með því að draga úr áhættusókn og mismunun innan kerfisins og uppfylla þar með enn betur markmið löggjafans með þessum veiðum.

Hér er því lagt til að ráðist verði í umræddar endurbætur með því að samþykkja sérstök lög um strandveiðar á meðan beðið er eftir endanlegum lyktum heildarendurskoðunar á lögum um stjórn fiskveiða. Þegar sér fyrir endann á þeirri heildarendurskoðun er eðlilegt að lög þessi renni inn í þann lagabálk í fyllingu tímans.

Herra forseti. Að svo mæltu legg ég til að málinu verði vísað til hv. atvinnuveganefndar þingsins.