141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

raforku-, fjarskipta- og samgöngumál Vestfirðinga.

[16:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstvirtur forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu, hún er mjög gagnleg og mjög mikilvæg. Jafnframt þurfum við Íslendingar að minna okkur á, og reyndar mannkynið allt, að stundum getur það gerst að náttúruöflin verði okkur yfirsterkari. Því fengum við að kynnast í Eyjafjallagosinu á sínum tíma sem truflaði flug víða í heiminum á stórum svæðum. Ég man eftir því að hafa talað við konu mína þegar óveðrið gekk yfir New York á sínum tíma. Þar sat hún í rafmagnsleysi í nokkra daga, samgöngur voru í rúst og hún komst ekki til Íslands. Það hefur stundum verið sagt að hamfarir séu ágætur spegill á innviði samfélags, hversu sterkt það er. Þegar á heildina er litið er íslenskt samfélag mjög sterkt, við búum við mjög góða innviði en í óveðrinu á Vestfjörðum opinberuðust ýmsir alvarlegir veikleikar í þessum kerfum eins og hér hefur verið bent á.

Ég tek undir það með hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni að þessi umræða í dag endurspeglar mikinn samhug, þverpólitískan vilja á því að taka á þessum málum vegna þess að við viljum ekki hafa þetta svona. Allt það sem við getum gert og ráðið við eigum við að gera til að treysta innviðina og öryggi landsmanna að því leyti.

Ég legg áherslu á og ítreka það sem ég sagði í upphafi míns máls að fjarskiptafyrirtækin sem hér koma við sögu taka hlutverk sitt mjög alvarlega. Þau hafa farið yfir allar sínar verkáætlanir og þegar gripið til aðgerða. Síðan þarf einnig að líta til raforkugeirans eins og hv. þm. Ólína Þorvarðardóttir nefndi réttilega. Við þurfum að íhuga varaaflið, það var það sem brást og þar var vandinn mestur. Síðan er einnig rétt að við þurfum að huga að ýmsu sem snýr að samgöngum og ég tek undir þær áherslur sem hv. þingmaður nefndi þar í bráðaaðgerðum, (Forseti hringir.) þótt ýmislegt kunni að þurfa að bíða lengri tíma.

Hæstv. forseti. Að lokum vil ég segja að af hálfu innanríkisráðuneytisins og fjarskiptasjóðs er verið að skoða þessi mál í ljósi nýyfirgenginna atburða með það í huga hvað við getum gert til (Forseti hringir.) úrbóta.