141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[18:06]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins að upphafi andsvars hv. þm. Péturs H. Blöndals.

Það var nefnilega þannig að ég þegar ég lagði fram þessa breytingartillögu, þegar þingsályktunartillagan kom fram um að rannsaka bankana í fyrra sinn, þá sá ég fyrir mér samlegðaráhrif. Það væri hægt að skipa hér eina rannsóknarnefnd sem hefði þetta tímabil í bankasögu Íslands allt undir, frá árinu 2000 til ársins 2012, og rannsakaði hvað nákvæmlega gerðist og hver þróunin varð. Það er til alveg geysilegt magn af gögnum af því búið er að rannsaka fyrri einkavæðingu bankanna svo ítarlega, þannig að kannski er nefndin, sem lagt var til að skipa hér fyrir jól, raunverulega vel sett að því leyti að mikið er til af gögnum til að byggja á, hún þarf ekki að byrja á byrjunarreit. Það er kannski ekki svo mikil vinna í þeirri rannsóknarnefnd eftir, af því að ég tel að það sé alveg þokkalega vel rannsakað og upplýst hvað gerðist í einkavæðingunni hinni fyrri.

Svo er það líka þannig, eins og þingmaðurinn fór yfir, að það er skrýtið að ekki skuli myndast þverpólitísk sátt um það sem þarf að rannsaka. Ég spyr þá hvers vegna farið var af stað með þá rannsókn á nýjan leik þegar málið var nánast fullrannsakað. Gott og vel, meiri hlutinn vildi þetta. Þess vegna er svo einkennilegt — vegna þess að meiri hlutinn sem nú situr er svo rannsóknarglaður á fortíðina — hvers vegna í ósköpunum viðkomandi meiri hluti — eða sem er minni hluti eftir daginn í dag — vill ekki taka þátt í því að rannsaka það sem gerðist í bankahruninu árið 2010 þegar þessir bankar voru einkavæddir á nýjan leik. Það skil ég ekki, en það er sem betur fer að styttast í kosningar.

Ég kem til með að leggja þetta þingmál fram aftur því að ég tel að sú rannsóknarnefnd sem á að stofna til að rannsaka einkavæðinguna fyrri verði falið (Forseti hringir.) að rannsaka það sem felst í þeirri rannsóknartillögu sem hér liggur fyrir.