141. löggjafarþing — 69. fundur,  23. jan. 2013.

rannsókn á einkavæðingu bankanna.

527. mál
[18:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú ekki missa trúna á hv. nefnd sem fær málið til vinnslu. Ég reikna bara með því að því gefnu sem kom hér fram í umræðunni um fyrra málið að hún muni taka því fagnandi að slík rannsókn fari fram. Mér skilst reyndar að ekki sé einu sinni búið að skipa þá nefnd sem á að rannsaka fyrri einkavæðinguna, en að það gæti verið sama fólkið sem geri þá rannsókn, vegna þess að það er ákveðin samfella þarna. Það er rétt hjá hv. þingmanni að búið er að rannsaka einkavæðinguna fyrri töluvert mikið. Ef nefndin dýpkar þá rannsókn með einhverjum hætti er ákveðin samfella, það eru sömu fyrirtækin sem héldu svo áfram, eða alla vega sami reksturinn, það er alveg á hreinu. Það eru sömu innstæðurnar og innstæðueigendur og allt slíkt sem héldu áfram í nýju bönkunum.

Þannig að ég reikna með því að hv. nefnd taki þessu fagnandi, hún hafi bara gleymt því eða eitthvað slíkt að leggja frumvarpið fram. Síðan getur hún falið sama fólkinu þá vinnu, það er ekki svo mikill kostnaðarauki fólginn í því að rannsaka einkavæðinguna hina síðari. Ég hef þá trú að hún verði rannsökuð, hvort sem það gerist á þessu kjörtímabili eða seinna. Auðvitað er betra að gera það fyrr en seinna þegar málin eru enn fersk, eins og með Sparisjóð Keflavíkur og alls konar önnur mál sem tengjast þessu. Menn vilja skoða dæmin meðan þau eru fersk og koma með niðurstöðu þannig að það liggi á hreinu og sé gagnsætt hvað var að gerast á þeim árum, á því kjörtímabili sem nú er að ljúka.