141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ósammála hv. þingmanni um það að ekki sé tími til þess að breyta stjórnarskránni samkvæmt þeim tillögum sem fyrir liggja. Þegar ég horfi fram í tímann sé ég að þingið hefur ríflega einn og hálfan mánuð til starfa áður en það stendur upp og kosningabaráttan hefst fyrir alvöru. Ég tel að þingið hafi ekkert sérstakt mikilvægt að gera annað en það að klára þessa stjórnarskrá. Ég tel að þingið sé búið að vinna mjög vel að þessu máli. Þetta er langur ferill.

Ég verð að segja að þær breytingartillögur sem liggja hér fyrir stórbæta það frumvarp sem lá fyrir. Ég er ekki að öllu leyti sammála öllu í þeim stjórnarskrárdrögum sem við erum að ræða hér. Ég tel hins vegar að ávinningarnir sem felist í henni séu svo miklu meiri en hugsanlegir skavankar að ég er til í að vinna að því með hv. þingmanni að ljúka því. Ég tel að við höfum meira en nógan tíma til þess vegna þess að málið er svo þraut- og þaulunnið til þessa.