141. löggjafarþing — 75. fundur,  30. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:32]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Nú er 2. umr. um þetta merkilega mál hafin í þingsal Alþingis. Við erum sem sagt komin svona langt, við erum komin í 2. umr. eftir allt þetta langa ferli. Ferlið hefur verið langt og farið er yfir það í inngangsorðum í greinargerðinni. Við erum ekki að tala um mánuði eða ár heldur áratugi.

Ég ætlaði ekki að ræða sérstaklega um þetta ferli heldur hvað er í þessu plaggi því að nú er komið að hinni efnislegu umræðu. Í þessari umræðu vil ég leggja áherslu á að hlusta, hlusta á það sem kemur hér fram í ræðum. Það er það sem við í meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar höfum verið að gera alveg síðan þetta mál kom inn, fyrst í skýrsluformi, á okkar borð í byrjun fyrravetrar, vegna þess að ábyrgðin á þessu er okkar í þinginu. Þó að við höfum útvistað verkefninu eftir alla þessa áratugi, vegna þess að þingið hafði augljóslega ekki getað unnið verkið sjálft og af því að við vildum líka fá þjóðina í þetta verk, að hún tæki þátt í því, er ábyrgðin okkar. Við í þessum sal berum ábyrgð á því að þetta sé í lagi. Þess vegna höfum við í nefndinni velt við hverjum steini, við höfum farið vel yfir allar ábendingar sem okkur hafa borist, jafnt frá almenningi sem sérfræðingum og hagsmunaaðilum. Við höfum kallað til okkar gesti og rætt málið við þá og við höfum sótt fundi hjá félagasamtökum og fræðasamfélaginu. Við höfum nefnilega verið að vanda okkur við þetta verk því að við tökum það alvarlega og viljum rísa undir ábyrgðinni.

Ég ætlaði ekki að tala sérstaklega um þetta ferli en ég bendi á að í upphafi nefndarálits meiri hlutans er aðeins farið í það á hvaða vinnu þetta byggir. Þetta er ekki umbylting á stjórnskipan landsins. Tillaga stjórnlagaráðs var fremur íhaldssöm og hefðbundin. Þó að vissulega séu í henni nýmæli sjáum við alls staðar í gegn núgildandi stjórnarskrá.

Stundum hefur hér verið sagt að í þessu öllu felist mikil óvissa og hér verði allt logandi í dómsmálum. Það er nú erfitt að ímynda sér lífið, miðað við hvernig það hefur verið síðustu fjögur ár, öðruvísi en að allt sé logandi í dómsmálum, en það er önnur saga. En ég held að það sé gott að fólk láti reyna á rétt sinn og það væri hálfónýtt ef ekki fælust neinar réttarbætur í þessu plaggi. Það er ekkert óeðlilegt við það að upp komi einhver ágreiningur við túlkun laga, kannski sérstaklega stjórnarskipunarlaga. Ef svo væri ekki og allt væri klippt og skorið og alltaf lægi algjörlega ljóst fyrir hvernig öll mál væru þyrftum við ekki dómstóla, lögin mundu nægja okkur, en það er ekki svoleiðis. Við þurfum að skjóta málum til dómstóla og það verður svoleiðis áfram. Þegar við erum að gera réttarbætur er að sjálfsögðu eðlilegt að fólk láti á þær reyna og að það sé tekist á um hver nákvæmlega rétturinn er við tilteknar aðstæður.

Þó að lögin, lögfræði og lagaskjöl virðist stundum þurr fjallar þetta allt um mannlega hegðun og mannlegt samfélag og hér erum við að setja ramma um samfélag okkar. Við ályktuðum hér á Alþingi, 63:0, eftir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom um að breyta stjórnarskránni og við ályktuðum líka um að við vildum breyta stjórnmálamenningunni. Þá er eðlilegt að spyrja: Getum við gert það með lagabreytingum? Getum við sett lög sem breyta hegðun okkar og hegðunarmynstri? Þetta finnst mér vera góð spurning. Mun Alþingi batna með nýrri stjórnarskrá? Verða þingmennirnir eitthvað betri ef þeir eru valdir með persónukjöri?

Ég held að þeir verði ekkert endilega betri en það er kannski auðveldara að sniðganga þá sem eru verri, augljóslega, og þeir verða kannski síður áfram þingmenn eða þingmenn fyrir það fyrsta. Ég veit ekki hvort þingmennirnir verða betri. Við höfum lagst yfir ýmis gögn sem sérfræðingar hafa sent okkur og ítarefni og það virðast vera dæmi um hvort tveggja víða um heim þannig að það má velta fyrir sér hvernig þetta mun virka hér. Ég hef ekkert svar við því þótt ég hafi fulla trú á persónukjöri og telji það æskilegt, vegna þess að ég vil að kjósendur hafi val.

Það eru miklu fleiri spurningar. Mun almenningur nýta sér rétt sinn til að leggja fram mál í þinginu? Við vitum það ekki og ýmis gögn sem við höfum lesið og ýmislegt sem ég hef lesið bendir til þess að ef þröskuldurinn er of hár — nú erum við að miða við 10% í frumvarpinu, og hann má ekki vera mikið hærri en það — er ólíklegt að mikið reyni á ákvæðið því að þá er þetta bara of erfitt fyrir fólk og of mikið fyrirtæki og engir einstaklingar ráðast í þetta. Ef við gerum til dæmis of erfitt að safna undirskriftum, það þurfi of margar eða það verði of flókið verður einungis á valdi mjög öflugra aðila og fjársterkra, jafnvel hagsmunaaðila, að leggja fram mál. Þá hefur þetta snúist upp í andhverfu sína. Við höfum dæmi um þetta t.d. frá Kaliforníu, þar átti að efla rétt fólksins í landinu til að koma málum á dagskrá. Nú er talið að það kosti 2 milljónir dollara að koma máli í slíkt ferli og í gegn. Það er augljóst að engir venjulegir borgarar standa í því. Það eru sterk hagsmunasamtök sem geta gert slíkt, ekki Jón og Gunna í Garðabænum. Við þurfum að passa okkur á því, ef við viljum að þetta séu virk ákvæði og þau virki fyrir almenning en ekki fjársterka hagsmunaaðila, að þröskuldurinn sé ekki of hár.

Mér fannst stjórnlagaráð vinna mjög gott verk. Ég hefði haft mína persónulegu stjórnarskrá öðruvísi en við erum ekki að fjalla um hana, við erum að fjalla um verk sem byggir á samhljóma ákvörðun mjög margra og þá verða auðvitað allir að gefa eitthvað eftir. En það er ekkert fullkomið og nefndinni hafa að sjálfsögðu borist ábendingar um ýmis atriði sem mætti laga. Þá höfum við vegið og metið málið því að þetta eru ekki trúarbrögð, þetta er ekki hið helga skjal, þetta er frumvarp til laga og við viljum gera það sem best úr garði.

Mig langar að nefna eitt dæmi um slíkt en það er 43. gr. um gildi kosninga. Núverandi fyrirkomulag er þannig að sérstök þingnefnd, sem var kjörbréfanefnd en fyrir tveimur árum breyttist það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, hefur það hlutverk að úrskurða um gildi kosninga. Þetta á sér sögulegar skýringar og hefur með sjálfstæði þingsins að gera, en í raun og veru finnst mér þetta galið fyrirkomulag núna á 21. öldinni þótt ég skilji af hverju þetta var betra en það sem var áður og af hverju þessu var komið á fyrir það fyrsta. Það var mitt fyrsta verk hér á þingi að úrskurða um gildi kosninga og þá hafði komið fram kæra frá borgurum sem kærðu að ekki væri jafnt vægi atkvæða á Íslandi. Ég var alveg hjartanlega sammála kærunni og setti fyrirvara við gildi kosninganna, en það var mjög skrýtið að vera í þessari stöðu. Ég var því mjög ánægð þegar stjórnlagaráð lagði það til að landskjörstjórn mundi úrskurða um gildi kosninga og svo væri hægt að skjóta úrskurði hennar til dómstóla.

Landskjörstjórn benti okkur á að hún vildi alls ekki þurfa að vera bæði framkvæmdaraðili og úrskurðaraðili og það er góð ábending. Ég held að hún sé mjög góð og eftir að hafa farið yfir þetta breyttum við þessu í nefndinni. Okkur var bent á fordæmi frá Svíþjóð þar sem sérstök nefnd er skipuð. Við leggjum til að forseti þingsins skipi nefnd en það eru eiginlega hæstaréttardómarar sem tilnefna í hana. Nefndin hefur þetta hlutverk og hennar úrskurður er endanlegur. Ég held að þetta sé ágæt lausn og hún á sér fyrirmyndir í nágrannaríkjum.

Ákvæðin í frumvarpinu eru misflókin. Sum þeirra finnast mér afskaplega auðskilin eins og t.d. 7. gr. um að allir hafi meðfæddan rétt til lífs. Mér finnst þetta vera algjörlega auðskilin grein. Hér er augljóslega ekki verið að tala um fóstur, vegna þess að orðið ,,meðfæddur“ kemur fyrir og þú getur ekki haft neitt meðfætt fyrr en þú fæðist. Því hef ég engar áhyggjur af því að þetta raski löggjöf um fóstureyðingar, en þetta er mjög mikilvægt ákvæði. Mér finnst mjög mikilvægt að allir sem fæðist hafi rétt til lífs.

Ein af þeim greinum sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar lagði fram breytingartillögu við er 6. gr., jafnræðisreglan. Í núgildandi stjórnarskrá eru tiltekin átta atriði sem ekki má mismuna vegna. Auðvitað getur slík upptalning aldrei verið tæmandi, enda bætti stjórnlagaráð mörgum atriðum við, ég held einum átta í viðbót, en okkur bárust ábendingar um enn fleiri atriði og sjálf gat ég alveg fundið upp á fleirum. Þess vegna finnst mér sú tillaga sem annar af fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, Birgir Ármannsson þingmaður, kom með algjörlega leysa þetta mál. Meiri hluti nefndarinnar leggur því til nýtt orðalag, beint frá Birgi Ármannssyni sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án mismununar.“

Þetta finnst mér sýna svo glöggt að alltaf er hægt að bæta og eftir því sem fleiri augu beinast að textanum er hægt að meitla hann betur. Með því að taka út sérgreindu atriðin verður greinin víðtækari, þá á hún við um alla. Ég er mjög ánægð með þessa breytingu.

Ég er líka mjög sátt við þá breytingu sem nefndin leggur til að ábendingu meiri hluta utanríkismálanefndar á 111. gr. Mér finnst hún leysa þetta mál alveg snilldarlega. Álit meiri hluta utanríkismálanefndar er gríðarlega vel unnið og mikill fengur í umfjöllun hans um til dæmis framsal fullveldis. Það skiptir miklu máli að hafa þetta með, sérstaklega núna þegar við höfum sótt um aðild að Evrópusambandinu.

Mig langaði líka aðeins að fjalla um 39. gr., Alþingiskosningar. Nefndin skrifaði eiginlega nýja grein en hún byggir á algjörlega sömu grundvallaratriðum og var að finna í tillögum stjórnlagaráðs en hún er einfaldari og mætir þeirri gagnrýni sem hefur komið fram á hana. Grundvallaratriðin um jafnt vægi atkvæða og persónukjör, en um hvort tveggja var spurt í þjóðaratkvæðagreiðslunni, eru þarna að ósk meiri hluta kjósenda í þeirri atkvæðagreiðslu. Stjórnlagaráð hafði lagt til kerfi sem margir misskildu, fann ég, þar sem flokkum var heimilt að leggja fram bæði landslista og/eða kjördæmalista. Meiri hluti nefndarinnar breytir því þannig að engir landslistar eru lengur en framboð mega ef þau vilja leggja fram sama lista í öllum kjördæmum. Fyrir þessu eru fordæmi, t.d. í Hollandi. Margir halda að Holland sé eitt kjördæmi en svo er ekki. Hollandi er skipt upp í kjördæmi en þar leggja flestir flokkarnir fram sama listann alls staðar. Þeir geta þó gert á honum breytingar, sett einhvern héraðshöfðingja í heiðurssætið eða borgarstjóra einhvers staðar á listann, hugsanlega til að vekja á honum meiri athygli eða láta einhverjar persónur vera einungis í framboði þar þótt þeir séu ekki þekktir eða hafi ekki notið hylli á landsvísu. Þeir geta líka boðið fram algjörlega ólíka lista í öllum kjördæmum. Ég held að þetta gæti hentað mjög vel hér á landi. Og af því að ég er nú alltaf í einhverju brölti með ný framboð vil ég segja að það hefði auðveldað okkur í Borgararhreyfingunni mjög mikið að geta boðið fram bara einn lista á landsvísu eða jafnvel tvo mismunandi en ekki þurft að finna 126 frambjóðendur.

Í máli Vigdísar Hauksdóttur þingmanns fyrr í kvöld fjallaði hún m.a. um 7. mgr. 39. gr. í breytingartillögum meiri hlutans, sem á sér nær samhljóma samsvörun í tillögu stjórnlagaráðs og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í kosningalögum skal mælt fyrir um hvernig stuðla skuli að sem jöfnustu hlutfalli kvenna og karla á Alþingi.“

Það kom fram að hún gerði ráð fyrir að með þessu yrði farið að eiga við úrslit kosninganna. Ég vil árétta að það er alls ekki hugsunin og kemur alls ekki til greina að mínu mati. Í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er þetta áréttað og bent á að sú skylda hvíli á framboðunum sjálfum að uppfylla þessa jafnræðiskröfu. Það eru auðvitað margar leiðir til þess. Það er hægt að gera hreinlega kröfu um ákveðið hlutfall karla og kvenna á framboðslistum, en það á að sjálfsögðu ekki að eiga neitt við úrslit kosninganna sjálfra.

Í ræðu minni við 1. umr. fjallaði ég töluvert um 14., 15. og 16. gr. sem mér finnst vera afskaplega mikilvæg ákvæði og fela í sér mjög sterka réttarbót fyrir almenning. Ég er ánægð með að meiri hluti nefndarinnar fellst á tillögu meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um að færa ákvæðin í fyrra horf, en þeim hafði verið breytt nokkuð hjá sérfræðingahópnum. Ég sagði það við 1. umr. að ég var svo heppin að ég dvaldi í Kína nokkra mánuði fyrir nokkrum árum og komst að því að internetið þar virkar ekki alveg eins og það virkar hér. Það er ekki hægt að opna hvað sem er, það er ekki hægt að leita að hverju sem er. Við munum öll nýliðna atburði, í arabíska vorinu, þar sem stjórnvöld í þeim löndum þar sem uppreisnirnar voru hreinlega slökktu á netinu til að koma í veg fyrir að fólk gæti skipulagt sig. Mér finnst afskaplega mikilvægt að réttur fólks til upplýsinga og til netsins sé stjórnarskrárbundinn.

Við 1. umr. spurði ég marga þingmenn í salnum hver væri þeirra eftirlætisgrein. Ég hef aldrei svarað þeirri spurningu sjálf og á í raun mjög erfitt með að gera það. Mannréttindakaflinn er mér allur mjög kær og mér finnst mikilvægt að hann nái fram að ganga. Mér finnst gott að samkvæmt frumvarpinu er stjórnskipunin öll miklu skýrari. Enginn getur lesið núgildandi stjórnarskrá og skilið hvernig við höfum hlutina, það er útilokað ef fólk veit það ekki fyrir fram. Hún er ekki góð lýsing á hlutunum og hún gefur valdhöfum, hvort sem eru ráðherrar, þingmenn eða forsetinn, mjög mikið frelsi í því hvernig þeir móta sitt embætti og ég held að það sé ekki hollt og gott. Ég vil að þetta sé nokkurn veginn niðurnjörvað.

Mér þykir líka mjög vænt um lýðræðisumbæturnar sem hér eru lagðar til. Jafnt vægi atkvæða er að mínu mati algjörlega nauðsynlegt. Ég vil koma á persónukjöri og ég er mjög spennt vegna málskotsréttar almennings og frumkvæðisréttar hans til að koma með mál inn í þingið.

Upplýsingaákvæðin sem ég talaði um áðan eru afskaplega mikilvæg. En allra vænst held ég að mér þyki um aðfaraorðin sem eru eins konar sáttmáli okkar sem byggjum landið. Okkur hefur skort svoleiðis sáttmála. Við höfum aldrei áður fengið það tækifæri að setja í eitthvert plagg orð um það hvernig þjóð við viljum vera og á hverju við viljum byggja þjóðfélag okkar.

Ég vil þakka öllum sem hafa lagt lóð á vogarskálarnar til að koma þessu máli alla þessa leið og ég vona að við náum saman að ýta því síðasta spölinn. Ég vil þakka öllum sem sátu í öllum þessum nefndum og ráðum hér áður, stjórnlaganefnd, öllum þeim þúsund sem komu á þjóðfundinn, öllum sem mættu og völdu sér fulltrúa sem sátu svo í stjórnlagaráði, og þeim sem komu og greiddu atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslunni í október síðastliðnum. Ég vil þakka nefndum þingsins, bæði meiri hlutum þeirra og minni hlutum fyrir vel unnin störf. Það er mikill fengur í mörgum þeirra álita sem frá nefndunum komu. Ég vil þakka öllum borgurunum sem sendu okkur erindi, sendu okkur gagnrýni, ábendingar, íhugunarefni og hvatningarorð. Síðast en ekki síst vil ég þakka þeim sem eiga sæti með mér í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.