141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

skattumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

[11:25]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem á að snúast um lítil og meðalstór fyrirtæki, umhverfi þeirra og möguleika. Þeim hefur ekki verið sérstaklega vel sinnt hér á Íslandi um allt of langan tíma. Við munum eftir því að atvinnustefna síðustu ára beindist ekki að litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem svo sannarlega, eins og hér hefur komið fram í umræðunni, eru þau fyrirtæki sem bera uppi atvinnulífið á Íslandi. Áherslan var á stærri fyrirtæki, helst alltaf stærri og stærri eftir því sem árin liðu en litlum og meðalstórum fyrirtækjum var gert ókleift eða erfitt að fóta sig, öfugt við það sem gerðist á Norðurlöndunum, sem dæmi, í erfiðleikum þeirra á þeim tíma.

Enda var það svo að á árinu 2009 lá fyrir alþjóðleg könnun, mat á því hjá hvaða þjóðum væri best að koma upp litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þar skoraði Ísland ekki hátt, var í neðsta sæti með núll, ekkert fyrirtæki í þeirri könnun gat hugsað sér að hefja rekstur á Íslandi. Vegna hvers? Það var auðvitað vegna efnahagsástandsins þá og þarf ekki að fara mörgum orðum um það og ekki síst vegna þess viðhorfs — og það ástand var búið að ríkja 2006, 2007, 2008 og til 2009 — sem stjórnmálamenn á Íslandi höfðu til efnahagsmála, þ.e. að þeir lásu ekki í efnahagsstöðuna á Íslandi eins og aðrir. Viðhorf íslenskra ráðamanna til atvinnulífsins sneri fyrst og fremst að stórum fyrirtækjum en ekki litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem bera uppi atvinnulífið.

Núna er verið að snúa af þessari braut sem betur fer, eins og kom fram í máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra áðan, með ýmsum ráðum sem vonandi fara að skila sér og ég mun (Forseti hringir.) fara betur yfir það í síðari ræðu minni.