141. löggjafarþing — 76. fundur,  31. jan. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[12:37]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlustaði grannt eftir umfjöllun hv. þingmanns um auðlindaákvæðin, náttúruverndarákvæðin í 33.–36. gr., vegna þess að þegar við vorum síðast saman í þessum sal að ræða þau ákvæði, ég og hv. þm. Atli Gíslason, stóðum við bak í bak, vorum sammála og börðumst fyrir því að í stjórnarskrá lýðveldisins yrði tekið inn ákvæði um vernd íslenskrar náttúru og um þjóðareign á auðlindunum. Nú sýnist mér hv. þingmaður ekki skilja orðið þjóðareign.

Ég vil spyrja hv. þingmann og vekja athygli á því, af því að hann segir að umsemja þurfi greinina frá grunni og bendir á að þær breytingar sem voru gerðar á vegum sérfræðinefndarinnar séu ekki til bóta, að í þeim tillögum sem nú liggja fyrir við 2. umr. málsins hefur þeim í veigamiklum atriðum verið snúið til baka til þess sem áður var, bæði hvað varðar þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar og ákvæðið um að það sem ekki er í einkaeigu skuli vera ævarandi eign þjóðarinnar. Loks hafa netlög verið lögð út. Þar að auki er búið að setja þar inn áréttingu um hverjir skuli fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt auðlindanna. (Forseti hringir.)

Ég hlýt að spyrja í ljósi þessa álits hv. þingmanns: Er hann þá ekki orðinn sammála okkur aftur? Er þá ekki búið að umsemja og endurskrifa (Forseti hringir.) greinina frá grunni og taka aftur það sem sérfræðinefndin breytti?