141. löggjafarþing — 79. fundur,  12. feb. 2013.

stjórn fiskveiða.

570. mál
[19:40]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er það rétt að störfin 900–1.200 sem hurfu á þeim áratug frá Ísafirði hurfu ekki vegna sölu Guðbjargarinnar heldur eingöngu vegna þeirra hljóðu hamfara sem áttu sér stað í því samfélagi vegna kvótakerfisins, eins og ég skil þá sögu. Ég spurði hv. þingmann af því að hann var bæjarstjóri þarna á árunum eftir 1990, og upplýsti þingmaðurinn að það hefði verið 1994, gott og vel, en einmitt á þeim árum eða þeim áratug dundu ósköpin yfir. Ég fæ engan veginn séð af hans svari að þeir atburðir hafi verið ótengdir því kvótakerfi sem nú er við lýði og var komið á þarna þegar framsalið var gefið frjálst eftir 1990, ég held að það hafi verið 1991 eða 1992, en þá upphófust þessir atburðir allir. Ég spyr: Hvernig getur þingmaðurinn haldið því fram að þeir atburðir hafi verið ótengdir því kvótakerfi sem við búum við dag og tengt það við einhverja eldri atburði eða það að við skulum yfir höfuð hafa komið böndum á fiskveiðar rúmum áratug áður?

Það er grundvallarspurning vegna þess að þegar við tölum um byggðaröskunina erum við einmitt að tala um afleiðingar þess að framsalið var gefið frjálst og menn fóru að versla með aflaheimildir eins og erfðagóss og það var það sem gerðist þegar byggðirnar misstu frá sér lífsviðurværið. Ég fæ ekki með neinu móti séð að það sem hv. þingmaður heldur fram standist, að það hafi ekki haft neitt með núverandi kvótakerfi að gera. Hann leiðréttir mig þá þar sem hann var á vettvangi þegar þeir nærtæku atburðir áttu sér stað með alþekktum afleiðingum.