141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:07]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hans innlegg. Reyndar vil ég í byrjun leiðrétta ákveðinn misskilning varðandi þann samanburð sem ég var að draga upp, hann var fyrst og fremst á því ferli sem við höfum verið að vinna varðandi breytingar á stjórnarskránni og fortíðinni, þ.e. ekki hinir hugdjörfu versus þeir sem eru í skúmaskotum að vinna heldur þeir aðilar sem vilja taka mark á þeirri gagnrýni sem hefur sett fram á stjórnmálamenningu okkar og það hvað almenningur hefur verið óvirkur, hliðsettur, gagnvart stórum breytingum eins og á grundvallarlöggjöf samfélagsins. Það er þetta ferli sem ég held að hafi verið mjög mikilvægt, ég held að það hafi skilað merkilegri vinnu. Það er mikill prófsteinn á okkur hér í þinginu að taka mark á þessu, ekki síst af því að þetta snýst að einhverju leyti um það að við erum að gefa eftir eða veita hlutdeild í þeirri miklu ábyrgð sem fylgir þingstörfunum, við erum að opna þingstörfin fyrir beinni aðkomu almennings í máli eins og þessu.

Ekki er langt á milli okkar hvað það varðar að ég tel mikilvægt að menn átti sig á því og veiti yfirlit um það hvaða breytingar þarf að ráðast í á gildandi löggjöf í samhengi við umræddar stjórnarskrárbreytingar. Ég lagði áherslu á það í máli mínu að við mættum ekki fara fram með óraunhæfar væntingar um að hægt verði að leggja eitthvert mat, sem raunverulegt hald er í, á áhrif þessara stjórnarskrárbreytinga þegar eftir er að útfæra þær í nýrri löggjöf sem ráðast þarf í í kjölfar breytinga á stjórnarskrá.