141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:54]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það birtist of mikil undirgefni — ég ætla ekki að segja undirlægjuháttur en allt of mikil eftirgjöf í orðum hæstv. utanríkisráðherra fyrir kröfum Evrópusambandsins um að það verði sveigt frá grunnstoðum EES-samstarfsins. Á þessum tímapunkti er engin þörf fyrir að ræða í þaula og ná einhverri niðurstöðu um það hvað á að gera ef þetta og hitt gerist og hvernig við ætlum að bregðast við ef Evrópusambandið hendir okkur út úr þeim þætti EES-samstarfsins sem snýr að frjálsum fjármagnsflutningum. Á þessum tímapunkti þurfum við ekki að segja neitt annað en að við teljum að krafan um að við framseljum vald til stofnana sem við eigum ekki aðild að sé óréttmæt, hún eigi sér ekki stoð í EES-samningnum, og að við krefjumst þess að okkar stofnanir, þær sem við eigum aðild að, hafi síðasta orðið eftir atvikum. Þetta er úrlausnarefnið og við skulum glíma við það.

Við getum velt vöngum yfir því hvað muni gerast ef það tekst ekki, en við þurfum ekkert að botna þá umræðu hér og nú. (Gripið fram í.) Þess vegna finnst mér mikilvægt að þeir sem standa í eldlínunni eins og hæstv. utanríkisráðherra geri sér grein fyrir þessum grunnforsendum samstarfsins (Utanrrh.: Þú veist að það er lausn á málinu.) og beygi sig ekki strax á þessu stigi fyrir kröfunum með því að mæla fyrir því að við færum inn í stjórnarskrána heimild til þess að framselja stofnunum sem við eigum ekki aðild að vald, endanlegt vald, í málaflokkum sem varða okkur miklu.

Mér finnst mjög mikilvægt að þeir sem fara fyrir þjóðinni í viðræðunum og í þessum málaflokki geri sér grein fyrir mikilvægi þess að nú þarf að standa í lappirnar gagnvart Evrópusambandinu. Þeir eiga enga sanngjarna réttmæta kröfu til þess að Ísland, Noregur og Liechtenstein undirgangist þessar kröfur. Það er þeirra vandi og þeir verða sjálfir að leggja eitthvað af mörkum til að hann verði leystur. (Utanrrh.: Þú hafðir lausnina sjálfur fyrir þremur árum.)