141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[15:07]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst aðeins varðandi kaflann um dýraheilbrigði og það sem tekist var á um þar. Það var meðal annars tekist á um að það stæði skýrt orðað að óheimilt væri að flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, eins og er í núgildandi matvælalögum. Ég mun koma að þeim kafla í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra í seinni ræðu minni. Þar var tekist á um þetta og líka um það hvort við færum með samningsumboðið gagnvart Alþjóðaviðskiptastofnuninni í þeim efnum, sem er einnig gríðarlega mikilvægt.

Hitt er alveg rétt um tollana í landbúnaði að það er sett fram sem eitt af grundvallaratriðum og meginatriðum varðandi umgjörð landbúnaðar í greinargerð með þingsályktunartillögunni um aðild. Þess vegna lagði ég áherslu á að fengið væri svar um hvort landbúnaðurinn fengi að halda tollvernd sinni eða ekki, (Forseti hringir.) Evrópusambandið þyrfti bara að svara því. En það fékkst ekki gert vegna þess að (Forseti hringir.) það var eitthvert sáluhjálparatriði. Herra forseti. Því tel ég að eigi að fá svar við.

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir á ræðutímann sem er ein mínúta í þessum andsvörum.)